Innlent

Milla Ósk úr Efstaleiti til aðstoðar Lilju

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Lilja Dögg Alfreðsdóttir er nýr yfirmaður Millu Óskar Magnúsdóttur.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir er nýr yfirmaður Millu Óskar Magnúsdóttur. Vísir/vilhelm/aðsend

Milla Ósk Magnúsdóttir, sem undanfarin ár hefur starfað sem fréttamaður hjá RÚV, hefur verið ráðinn aðstoðarmaður Lilju Daggar Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra. Hafþór Eide Hafþórsson, sem verið hefur aðstoðarmaður Lilju lætur af störfum.

Í tilkynningu frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu segir að Milla Ósk hefji störf á morgun en síðastliðinn áratug hefur hún starfað hjá Ríkisútvarpinu, síðustu ár sem fréttamaður en áður sem aðstoðarframleiðandi frétta og dagskrárgerðarkona í útvarpi og sjónvarpi. Þá var hún varaformaður Félags fréttamanna á Ríkisútvarpinu.

Milla er með ML-próf í lögfræði frá Háskóla Reykjavíkur þar sem hún sérhæfði sig í fjölmiðlarétti, auk þess að leggja áherslu á persónuupplýsinga- og vinnurétt.

Hún mun hefja störf í ráðuneytinu þann 10. desember. Samhliða mun Hafþór Eide Hafþórsson láta af störfum, en hann hefur verið mennta- og menningarmálaráðherra til aðstoðar frá desember 2017.

Aðeins tvær vikur eru síðan greint var frá vistaskiptum annarrar fréttakona á RÚV. Sigríður Halldórsdóttir réð sig til starfa sem aðstoðarmann Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfisráðherra. Sigríður hóf störf í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×