Innlent

Spekt í Kópavogi en deilur í Hafnarfirði

Kristinn Haukur Guðnason skrifar
Meirihlutinn í Hafnarfirði var gagnrýndur fyrir að hækka ekki útsvar.
Meirihlutinn í Hafnarfirði var gagnrýndur fyrir að hækka ekki útsvar. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Fasteignagjöld verða lækkuð í Kópavogi árið 2020, og einnig bæði fráveitugjald og sorphirðugjald. Þetta kemur fram í fjárhagsáætlun sem Ármann Kr. Ólafsson mælti fyrir á þriðjudag á fundi bæjarstjórnar Kópavogs.

Áætlunin var samþykkt af öllum 11 bæjarfulltrúum og er þetta fimmta árið í röð sem hún er unnin í samvinnu allra flokka. Fimm flokkar eiga fulltrúa í bæjarstjórn Kópavogs.

Fasteignaskattar á íbúðarhúsnæði lækka úr 0,22 prósentum í 0,215 og atvinnuhúsnæði úr 1,5 prósentum í 1,49. Þá verða tekjuviðmið afslátta einnig hækkuð. Skattar á opinbert húsnæði haldast þó óbreyttir. Fráveitugjaldið lækkar úr 0,105 prósentum í 0,09 og sorphirðugjaldið úr 36.800 krónum í 34.000. Ákveðið er að halda útsvarinu óbreyttu í 14,48 prósentum.

Í Hafnarfirði urðu meiri deilur um fjárhagsáætlun og þá sérstaklega að halda útsvarsprósentunni í 14,48 prósentum. Samfylkingin lagði til að útsvar yrði hækkað í hámarkið, 14,52 prósent, og undir það tóku Sigurður Þ. Ragnarsson, fulltrúi Miðflokks, og Guðlaug Kristjánsdóttir, fulltrúi Bæjarlista, á bæjarstjórnarfundi á miðvikudag. Adda María Jóhannsdóttir, oddviti Samfylkingar, bókaði að auk þess að halda útsvarinu óbreyttu sé verið að hækka gjaldskrár á tekjulága hópa, langt umfram tilmæli Sambands íslenskra sveitarfélaga. Ágúst Bjarni Garðarsson, fulltrúi Framsóknarflokks, sagði að meirihlutinn hefði það markmið að halda gjaldskrám þeim lægstu á höfuðborgarsvæðinu.

Vinna við gerð fjárhagsáætlana stendur nú yfir í fleiri sveitarfélögum, svo sem Akureyrarbæ, Reykjanesbæ og Árborg.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.