Innlent

Hlýindi og rigning taka við á morgun

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Á morgun tekur að hlýna í veðri og bætir í rigningu.
Á morgun tekur að hlýna í veðri og bætir í rigningu. Vísir/vilhelm

Í dag er útlit fyrir slyddu- eða snjóél víða á landinu en horfur eru á þurru veðri um landið suðaustan- og austanvert. Allvíða verður frostlaust með ströndinni, en frost inn til landsins. Þá má búast við vestlægri átt á landinu, víða á bilinu 5-10 m/s, að því er fram kemur í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands.

Á morgun bætir í vind úr suðri, það hlýnar og fer að rigna. Strekkingur verður víða „en á stöku stað nær sunnanáttin sér betur á strik og má til dæmis búast við hvassviðri á norðanverðu Snæfellsnesi seinnipartinn,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Þurrt verður norðaustan- og austanlands og hitinn undir frostmarki fram eftir degi, „enda styrkur sunnanáttarinnar á þeim slóðum ekki nægur til að blása kalda loftinu burt sem þar liggur fyrir.“

Á mánudag er svo útlit fyrir áframhaldandi sunnanátt með vætu og hlýnar enn frekar á landinu.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á sunnudag:
Gengur í sunnan 8-15 m/s með rigningu, en hvassara á norðanverðu Snæfellsnesi. Hægari vindur norðaustan- og austanlands og þurrt að kalla. Hlýnar í veðri, hiti 4 til 8 stig undir kvöld, en kringum frostmark norðaustantil.

Á mánudag:
Sunnan og suðvestan 10-18 með rigningu og súld, en úrkomulítið á Austurlandi. Hiti 6 til 12 stig.

Á þriðjudag:
Suðlæg átt og víða rigning eða slydda. Vestlægari seinnipartinn á vestanverðu landinu með éljum og kólnar.

Á miðvikudag:
Hvöss suðvestan- og vestanátt með éljagangi, en bjartviðri á austanverðu landinu. Hiti um og undir frostmarki.

Á fimmtudag:
Vestlæg eða breytileg átt og dálítil él, en rigning eða slydda syðst á landinu og áfram bjart austanlands. Hiti kringum frostmark.

Á föstudag:
Útlit fyrir norðanátt með snjókomu eða éljum, en léttir til sunnanlands síðdegis. Hiti rétt undir frostmarki.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.