Innlent

Telja sig hafa fundið svörtu ekkjuna í vínberjapoka

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Köngulóin er með afar einkennandi rauðan díl á maganum.
Köngulóin er með afar einkennandi rauðan díl á maganum. Mynd/Aðsend

Eintak af svörtu ekkjunni, eitraðri könguló, gæti hafa fundist í vínberjapoka frá Kaliforníu sem keyptur var í verslun í Garðabæ. Finnendum köngulóarinnar brá þegar hún birtist á milli vínberjanna – og þeim varð svo ekki um sel þegar þeir komu auga á rauðan díl á búk dýrsins, einkennismerki hinnar banvænu ekkju. Ekki hefur þó fengist staðfest að um sé að ræða umrædda tegund.„Við keyptum vínber fyrir tveimur dögum í Krónunni, græn vínber, og vorum búin að borða nokkur vínber úr pokanum í fyrradag og ætluðum svo að fá okkur fleiri í gærkvöldi,“ segir Jón Helgi Steingrímsson, einn kaupenda vínberjapokans, í samtali við Vísi.

Kærustuparið Anya Lkhagvadorj og Jón Helgi Steingrímsson. Það var Anya sem kom fyrst auga á köngulóna.Mynd/Aðsend

„Eftir að við skoluðum vínberin og settum í skál sá kærastan mín þessa könguló í vínberjunum og við fríkuðum aðeins út, við bjuggumst ekki við þessu. Síðan sá ég einmitt þetta rauða stundaglas á köngulónni, sem er einkennandi fyrir svörtu ekkjuna. Þá varð ég hræddur og setti lok yfir hana. Síðan settum við hana í glerglas og erum búin að vera að geyma hana þar síðan.“Ekki hefur fengist staðfest að um sé að ræða eintak af svörtu ekkjunni, sem er eitruð. Á myndum sem teknar voru af köngulónni sést þó rauði depillinn, sem er í laginu eins og stundaglas og er eitt af einkennismerkjum tegundarinnar, nokkuð vel.Þá lýsir Jón því að köngulóin sé ekki ýkja stór - á stærð við rúman tíkall. Það kemur vissulega heim og saman við lýsingu á tegundinni sem finna má á Vísindavefnum.„Kvendýr L.macas (hinnar eiginlegu svörtu ekkju) er skínandi svart, um 2,5 cm á lengd og oft með rauðan blett undir afturbolnum. Bletturinn er oft í laginu eins og stundaglas eða þá tveir rauðir dílar.“

Köngulónni var komið fyrir í krukku í snarhasti.Mynd/Aðsend

Jón kveðst hafa sent ábendingu um köngulóna á Matvælastofnun en hefur ekki fengið svör við erindi sínu. „Við geymum hana þangað til við vitum hvað við eigum að gera.“Talið er að svarta ekkjan geti lifað í rúmt eitt og hálft ár, að því er segir í áðurnefndri umfjöllun um hana á Vísindavefnum. Hún notar öflugt eitur til að lama bráð sína, gerir leifturárás á bráðina og bítur snöggt í hana. Sjaldgæft er þó að fólk látist af völdum bits frá svörtu ekkjunni en eitrið getur valdið miklum sársauka, svima og doða í útlimum.„Þess má geta að eitur svörtu ekkjunnar er 15 sinnum öflugara en eitur skröltorms en sem betur fer er magnið margfalt minna,“ segir í umfjöllun á Vísindavefnum. Þá halda tegundir svörtu ekkjunnar til víða um heim: í Afríku, Suður- og Norður- Ameríku, sunnanverðri Evrópu, Norður-Afríku, miðausturlöndum og á miðbaugsvæðunum.

Hér má sjá mynd af svartri ekkju sem fengin er af Getty. Rauða stundaglasið sést vel á maganum.Vísir/getty

Ekki fer mörgum sögum af heimsóknum svörtu ekkjunnar hingað til lands. Árið 2017 greindi Morgunblaðið þó frá óvæntum laumufarþega upp úr fötu með portú­gölsk­um blá­berj­um á heim­ili í Garðabæ. Þar var á ferðinni svo­kölluð kran­skóngu­ló, skyld hinni eitruðu svörtu ekkju.Vísir hafði samband við Erling Ólafsson skordýrafræðing vegna málsins en hann var ekki til viðtals. Þá hefur Vísir einnig sent fyrirspurn um köngulóna á skordýrafræðing hjá Náttúrufræðistofnun.Hér að neðan má sjá stutt myndband af hinni meintu svörtu ekkju sem fannst í vínberjapokanum.

Og hér að neðan er svo annað enn styttra, af sömu könguló.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.