Innlent

Gaf upp nafn og kenni­tölu systur sinnar eftir að hafa verið tekin fyrir fíkni­efna­akstur

Atli Ísleifsson skrifar
Lögregla á Suðurnesjum um helgina ökumann sem hafði ekið á miklum hraða fram úr lögreglubíl í eftirlitsferð á Reykjanesbrautinni.
Lögregla á Suðurnesjum um helgina ökumann sem hafði ekið á miklum hraða fram úr lögreglubíl í eftirlitsferð á Reykjanesbrautinni. Vísir/vilhelm
Lögregla á Suðurnesjum stöðvaði um helgina ökumann sem hafði ekið á miklum hraða fram úr lögreglubíl í eftirlitsferð á Reykjanesbrautinni.

Í tilkynningu frá lögreglu segir að um hafi verið að ræða erlendan ferðamann sem hafi ekið á 122 kílómetra hraða, en hámarkshraði á Reykjanesbraut er 90.

„Blástur í áfengismæli renndi stoðum undir að viðkomandi hefði neytt áfengis og var hún því handtekin og færð á lögreglustöð.

Þá voru nokkrir ökumenn teknir úr umferð vegna gruns um fíkniefnaakstur. Tveir þeirra reyndust sviptir ökuréttindum ævilangt. Annar þeirra, kona á fertugsaldri, reyndi að villa á sér heimildir með því að gefa upp kennitölu og nafn annars einstaklings en viðurkenndi svo á endanum að þær upplýsingar tilheyrðu systur hennar.

Enn fremur voru höfð afskipti af ökumanni sem svaf ölvunarsvefni undir stýri í bifreið sinni. Í farþegasæti við hlið hans fundu lögreglumenn tveggja lítra gosflösku með landa en lítið var eftir í henni. Viðkomandi var færður á lögreglustöð þar sem sýnatökur bentu til þess að hann hefði neytt kannabisefnis.

Skráningarnúmer voru svo fjarlægð af nokkrum bifreiðum sem voru ótryggðar eða óskoðaðar,“ segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×