Innlent

Austfirðingar baða sig við kertaljós þegar dagar myrkurs fara í hönd

Kristján Már Unnarsson skrifar
Heiður Vigfúsdóttir, framkvæmdastjóri Vök Baths. Fyrir aftan má sjá kertaljósin loga á eyjum baðlauganna.
Heiður Vigfúsdóttir, framkvæmdastjóri Vök Baths. Fyrir aftan má sjá kertaljósin loga á eyjum baðlauganna. Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Sameiginleg byggðahátíð Austfirðinga, Dagar myrkurs, hófst á Austurlandi í dag en hún stendur yfir næstu fimm daga. Í tilefni hennar var Stöð 2 í beinni útsendingu frá nýja baðstaðnum Vök Baths við Egilsstaði, sem býður gestum upp á kertaljós og kósý-stund, og lifandi tónlist, að því er fram kom í viðtali við Heiði Vigfúsdóttur, framkvæmdastjóra Vök Baths.Bæjarfélög, stofnanir, fyrirtæki og einstaklingar um allt Austurland leggjast á eitt til að hvetja til samveru og gera íbúum og gestum þeirra glaða daga nú þegar skammdegið fer í hönd og lýsa það upp – ellegar undirstrika það með skírskotun í ríkan drauga- og vættaarf, að því er fram kemur á vef Austurbrúar. „Í fimm daga rekur svo hver viðburðurinn annan í hverju bæjarfélagi og ættu háir sem lágir að finna eitthvað við sitt hæfi í dagskránni. Listafólk leggur lóð sín á vogarskálarnar; tónlist og myndlist verða í öndvegi, hlaðborð og þjóðlegir réttir, kertaljós og kósý-stundir í sundlaugum, ljóðalestur, draugagangur og afturganga, bílabíó og Ástardagar, sviðamessa, myrkra- og grímuböll, og stjörnum og norðurljósum fagnað,“ segir ennfremur. Vök Baths er við Urriðavatn, um fimm kílómetra norðan Egilsstaða. Þessi nýstárlegi baðstaður tók til starfa fyrir þremur mánuðum en nafn hans vísar til heitra náttúrulauga á vatnsbotninum sem mynda vakir í vatninu á vetrum.Hér má sjá frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.