Innlent

Brutust inn í íbúð í Laugardal og flugust á

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Kvartettinn er sagður hafa brotist inn í íbúð í Laugardal.
Kvartettinn er sagður hafa brotist inn í íbúð í Laugardal. Vísir/vilhelm
Fjórir einstaklingar voru handteknir í Laugardal í gærkvöldi. Að sögn lögreglu hafði henni borist tilkynning á áttunda tímanum um að brotist hafi verið inn í íbúð og fólki þar lent saman.

Einstaklingarnir fjórir sem um ræðir, þrír karlmenn og eina kona, voru flutt í fangageymslu vegna gruns um margvísleg brot, til að mynda fyrrnefnt húsbrot auk brota á vopnalögum. Þó virðist ekki hafa verið tilefni til að halda þeim lengi því lögreglan segist hafa sleppt þeim að lokinni skýrslutöku.

Flest þeirra mála sem lögreglan segir hafa komið inn á borð sín tengjast fíkniefnum með einum eða öðrum hætti, til að mynda akstur undir áhrifum eða varsla neysluskammta.

Af öðrum málum úr dagbók lögreglu ber helst að nefna handtöku karlmanns sem grunaður er um heimilisofbeldi á sjötta tímanum í gær. Ólíkt kvartettnum úr Laugardal er hann enn í haldi lögreglu.

Þá er karlmanns leitað sem sagður er hafa reynt að greiða fyrir vörur með fölsuðum 100 bandaríkjadala seðli. Fátt virðist vitað um málið á þessari stundu, en lögreglan segir það þó í rannsókn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×