Innlent

Tveimur bjargað úr brennandi íbúð í Mávahlíð

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Mikill reykur og eldur í kjallaraíbúð tók á móti slökkviliðsmönnum þegar þeir komu á vettvang.
Mikill reykur og eldur í kjallaraíbúð tók á móti slökkviliðsmönnum þegar þeir komu á vettvang. Vísir/Jóhann K.

Mikil viðbúnaður var hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins eftir að tilkynning barst á öðrum tímanum í nótt um að eldur logaði í íbúð í Mávahlíð. Nær allt tiltækt lið var sent á staðinn enda um fjölbýlishús að ræða.

„Það var mikill reykur úr kjallaraíbúðinni og sjáanlegur eldur í anddyrinu,“ sagði Gunnlaugar Jónsson, aðstoðarvarðstjóri hjá slökkviliðinu aðspurður um hvernig aðstæður hefðu verið þegar slökkviliðsmenn komu á vettvang.

„Reykkafarar voru strax sendir að íbúðinni og tókst á afar skömmum tíma að bjarga tveimur út um glugga íbúðarinnar,“ segir Gunnlaugur.

Þrír fluttir á slysadeild

Aðspurður sagðist Gunnlaugur ekki hafa upplýsingar um ástand fólksins sem var bjargað úr íbúðinni. Auk þeirra tveggja var einn til viðbótar fluttur á slysadeild Landspítalans í Fossvogi til aðhlynningar.

Þar sem um fjölbýlishús er að ræða og vegna aðstæðna var húsið rýmt. Reykur hafði náð inn í aðrar íbúðir hússins. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu kallaði til áfallateymi Rauða kross Íslands.

Gunnlaugur segir að mikill eldur hafi verið í íbúðinni þegar að var komið en eldsupptök liggja ekki fyrir. Tæknideild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hefur tildrög brunans til rannsóknar.
 

Reykkafari gerir sig kláran til þess að fara inn í íbúðina. Vísir/Jóhann K.
Lögreglumenn frá tæknideild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og slökkviliðsmenn ræða saman á vettvangi. Vísir/Jóhann K.


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.