Innlent

Tveimur bjargað úr brennandi íbúð í Mávahlíð

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Mikill reykur og eldur í kjallaraíbúð tók á móti slökkviliðsmönnum þegar þeir komu á vettvang.
Mikill reykur og eldur í kjallaraíbúð tók á móti slökkviliðsmönnum þegar þeir komu á vettvang. Vísir/Jóhann K.
Mikil viðbúnaður var hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins eftir að tilkynning barst á öðrum tímanum í nótt um að eldur logaði í íbúð í Mávahlíð. Nær allt tiltækt lið var sent á staðinn enda um fjölbýlishús að ræða.

„Það var mikill reykur úr kjallaraíbúðinni og sjáanlegur eldur í anddyrinu,“ sagði Gunnlaugar Jónsson, aðstoðarvarðstjóri hjá slökkviliðinu aðspurður um hvernig aðstæður hefðu verið þegar slökkviliðsmenn komu á vettvang.

„Reykkafarar voru strax sendir að íbúðinni og tókst á afar skömmum tíma að bjarga tveimur út um glugga íbúðarinnar,“ segir Gunnlaugur.

Þrír fluttir á slysadeild

Aðspurður sagðist Gunnlaugur ekki hafa upplýsingar um ástand fólksins sem var bjargað úr íbúðinni. Auk þeirra tveggja var einn til viðbótar fluttur á slysadeild Landspítalans í Fossvogi til aðhlynningar.

Þar sem um fjölbýlishús er að ræða og vegna aðstæðna var húsið rýmt. Reykur hafði náð inn í aðrar íbúðir hússins. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu kallaði til áfallateymi Rauða kross Íslands.

Gunnlaugur segir að mikill eldur hafi verið í íbúðinni þegar að var komið en eldsupptök liggja ekki fyrir. Tæknideild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hefur tildrög brunans til rannsóknar.

 

Reykkafari gerir sig kláran til þess að fara inn í íbúðina.Vísir/Jóhann K.
Lögreglumenn frá tæknideild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og slökkviliðsmenn ræða saman á vettvangi.Vísir/Jóhann K.Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.