Innlent

Sáu líkams­á­rás „nánast út um kaffi­stofu­gluggann“ á lög­reglu­stöðinni

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Árásin átti sér stað skammt frá lögreglustöð 2, sem stendur við Flatahraun í Hafnarfirði.
Árásin átti sér stað skammt frá lögreglustöð 2, sem stendur við Flatahraun í Hafnarfirði. Vísir/vilhelm
Karlmaður var handtekinn í Flatahrauni í Hafnarfirði í hádeginu í gær eftir að hafa ráðist á ökumann bifreiðar, sem hann taldi hafa ekið í veg fyrir sig. Árásin átti sér stað um 30 metra frá lögreglustöðinni við Flatahraun 11 og voru lögreglumenn því ekki lengi á vettvang - „við sáum þetta nánast út um kaffistofugluggann hjá okkur,“ eins og lögregluþjónn á lögreglustöð 2 orðaði það í samtali við Vísi.

Að sögn vitnis rauk árásarmaðurinn að bíl fyrir framan sig og barði í rúðuna, reif síðan upp hurðina og sló ökumann nokkrum höggum í andlitið áður en hann dró ökumanninn út úr bílnum. Fjölskylda ökumannsins var í bílnum, eiginkona hans og ungur sonur.

Vitnið segir árásarmanninn hafa öskrað á ökumanninn að hann hafi „svínað á sig,“ áður en hann lét höggin dynja. Þau sem urðu vitni að atburðarásinni segja þá ásökun þó ekki halda vatni.

Sem fyrr segir var lögreglan fljót að ganga á milli og handtaka árásarmanninn sem var fluttur á lögreglustöðina. Ekki var talið tilefni til að fara fram á gæsluvarðhald yfir manninum og fékk hann því að halda heim að lokinni skýrslutöku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×