Innlent

Segir nýja stjórnendur Reykjalundar skorta menntun og reynslu í endurhæfingu

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Magdalena Ásgeirsdóttir formaður læknaráðs Reykjalundar íhugar stöðu sína eftir vendingar á stofnuninni,
Magdalena Ásgeirsdóttir formaður læknaráðs Reykjalundar íhugar stöðu sína eftir vendingar á stofnuninni,
Meðferð sjúklinga var stefnt í hættu með fyrirvaralausri uppsögn framkvæmdastjóra lækninga við Reykjalund segir formaður læknaráðs stofnunarinnar. Málið var tilkynnt til Landlæknis. Hún ber hvorki traust til stjórnar né nýrra stjórnenda. Fráfarandi framkvæmdastjóri lækninga sakar stjórnarformann um rangfærslur.

Magdalena Ásgeirsdóttir formaður læknaráðs Reykjalundar segir mikla ólgu meðal starfsfólks stofnunarinnar vegna atburða síðustu vikna. Hún ber ekki traust til nýrra stjórnenda.

„Við erum búin að lýsa vantrausti á stjórnina og þeir sem setjast í stöður í þeirra skjóli eru þar að leiðandi handbendi þeirra og njóta ekki trausts.“ segir Magdalena.

Þá segir hún að það skorti menntun og reynslu í endurhæfingu sjúklinga hjá framkvæmdastjórn og nýjum stjórnendum.

„Þeir sem sitja núna í framkvæmdastjórn Reykjalundar hafa ekki endurhæfingarmenntun og litla sem enga reynslu af þeim málum. Nýsettur framkvæmdastjóri lækninga hefur ekki að því ég best veit unnið að þverfaglegri endurhæfingu nokkrun tíma á sínum starfsferli þó að hann hafi sinnt sérhæfðri geðendurhæfingu,“ segir hún. 



Tveir læknar hafa nýlega sagt upp störfum á Reykjalundi, einn í síðustu viku og annar fyrir nokkrum vikum. Magdalena er að íhuga sína stöðu.

„Ég náttúrulega treysti mér ekki að vinna undir stjórn þeirra sem ég hef lýst vantrausti á og það er alveg klárt. En ef núverandi stjórn SÍBS verður sett af verð ég mögulega tilbúin til að starfa áfram,“ segir Magdalena.  

Uppsagnir stjórnenda hafi borið að með afar óeðlilegum hætti.

Forstjórinn og framkvæmdastjóri lækninga voruhreinlega bornir út úr húsi og það er sérstaklega alvarlegt í tilfelli framkvæmdastjóra lækninga sem sinnti líka klínískri vinnu en það var lokað fyrir sjúkraskrá og meðferð þannig stefnt í hættu og jafnvel sjúklingum. Málið hefur nú verið tilkynnt til Landlæknis,“ segir hún. 

Fráfarandi framkvæmdastjóri lækninga segir stjórnarformanninn fara með rangt mál

. Magnús Ólafsson fráfarandi framkvæmdastjóri lækninga á Reykjarlundi sagði í samtali við fréttastofu að Sveinn Guðmundsson stjórnarformaður SÍBS hafi farið með rangt mál í fjölmiðlum þegar fram hafi komið að Magnús hafi ekki viljað hætta . Magnús segist aldrei hafa sagt að hann vildi ekki láta af störfum hann hafi hins vegar verið beðinn af forstjóra Reykjalundar í sumar að starfa áfram sem læknir við stofnunina eftir að hann hætti sem framkvæmdastjóri. Mál sitt sé nú í farvegi hjá lögmanni Læknafélagsins. 

 

 

 

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×