Innlent

„Stór dagur í sögu borgarinnar og sögu alls höfuð­borgar­svæðisins“

Sylvía Hall skrifar
Borgarstjórn samþykkti samkomulag um uppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu til næstu fimmtán ára í dag, svokallaðan samgöngusáttmála, með tólf atkvæðum meirihlutans gegn ellefu atkvæðum annarra borgarfulltrúa eftir um það bil þriggja klukkustunda umræðu.

„Auðvitað er það jákvætt að fara í uppbyggingu en ellefu borgarfulltrúar úr fjórum flokkum greiddu atkvæði gegn vegna þess að það er svo mörgum spurningum ósvarað,“ sagði Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, aðspurður hvers vegna hann studdi ekki sáttmálann. Hann segir enn vera óljóst hvernig eigi að fjármagna þau loforð sem gefin eru í sáttmálanum.

Sjá einnig: Borgarstjórn samþykkir samgöngusáttmála

„Þetta kostar oft meira en menn halda og þetta eru svakalegar upphæðir, við þurfum að sýna aðhald og það gerum við hér.“

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sagði svör Eyþórs endurspegla þá umræðu sem átti sér stað við atkvæðagreiðslu í dag. Þar hefði verið hnýtt í smáatriði en ekki litið á heildarmyndina.

„Það er mjög breið sátt um hana, nú er búið að eyða óvissu um borgarlínu, við erum að fara að sjá Miklubraut í stokk og í raun algjöra græna og jákvæða umbreytingu á borginni sem mun gera vel við samgöngurnar, gera vel við mannlífið og lífsgæðin,“ sagði Dagur.

„Þetta er auðvitað fyrst og fremst mjög stór dagur í sögu borgarinnar og sögu alls höfuðborgarsvæðisins.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×