Innlent

Bjartviðri í dag en næsta lægð handan við hornið

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Það verður hæglætisveður í dag og víða á morgun en næsta lægð er væntanleg á sunnudag.
Það verður hæglætisveður í dag og víða á morgun en næsta lægð er væntanleg á sunnudag. Vísir/vilhelm

Léttskýjað og bjartviðri, með hægri norðaustanátt, verður á landinu í dag, fyrir utan dálitlar skúrir eða slydduél norðaustantil. Eftir hádegi má svo búast við því að áfram verði léttskýjað í breytilegri átt en að mestu skýjað austanlands.

Þá er von á stöku skúrum á Suðurlandi seinnipartinn og í kvöld. Kalt er í veðri en hiti verður á bilinu eitt til sjö stig í dag, hlýjast syðst, að því er segir í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands.

Á morgun má búast við áframhaldandi hæglætisveðri víðast hvar en skýjað og skúrir sunnan- og vestanlands. Á sunnudag er síðan von á næstu lægð, með suðvestanstrekkingi og rigningu í öllum landshlutum.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á laugardag:
Hæg vestanátt og víða bjartviðri, en skýjað um vestanvert landið, og dálítil væta á Suðurlandi. Hiti 1 til 6 stig yfir daginn.

Á sunnudag:
Suðvestan 8-13 m/s og rigning, en hægari og þurrt austanlands. Hiti 0 til 7 stig, hlýjast syðst.

Á mánudag:
Vestlæg átt, 8-13 m/s og rigning í flestum landshlutum. Hiti breystist lítið. Hvessir af norðri seinnipartinn með kólnandi veðri og snjókomu norðantil, fyrst á norðvesturlandi.

Á þriðjudag:
Útlit fyrir hvassa norðanátt með snjókomu um norðanvert landið, en dregur úr úrkomu eftir hádegi. Þurrt og yfirleitt bjart sunnantil. Frost 1 til 6 stig, en hiti um og yfir frostmarki sunnanlands.

Á miðvikudag og fimmtudag:
Norðanátt og él norðantil á landinu en léttskýjað á suðurhelmingi landsins. Frost 2 til 7 stig.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.