Innlent

Í raun refsing án dóms og laga

Ari Brynjólfsson skrifar
Ólafur Ólafsson.
Ólafur Ólafsson. Fréttablaðið/Vilhelm
Mann­réttinda­dóm­stóll Evrópu, MDE, hefur kallað eftir svörum frá stjórnvöldum í tengslum við kæru Ólafs Ólafs­sonar vegna skýrslu rann­sóknar­nefndar Al­þingis frá 2017 um að­komu þýska bankans Hauck & Auf­häuser að einka­væðingu Búnaðar­bankans árið 2003.

Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar frá 2017 var það afdráttarlaus niðurstaða að Hauck & Auf­häuser hafi aldrei fjárfest í Búnaðarbankanum, hafi það í raun verið Welling & Partners, félag sem er skráð á Tortóla. Ólafur kærði niðurstöðuna til MDE sumarið 2017. Telur hann málsmeðferðina jafngilda sakamáli, en hann hafi ekki notið réttinda sakbornings.

„Vinna og birting á skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis vó alvarlega að orðspori mínu og æru án þess að ég hefði nokkurt tækifæri til að koma við vörnum eða nýta þau réttindi sem við teljum sjálfsagt að fólk, sem borið er þungum sökum af hálfu stjórnvalda, njóti. Þótt skýrslan hafi verið skrifuð undir því yfirskini að varpa ljósi á 15 ára gamalt mál fólust í henni alvarlegar og einhliða ásakanir á mig sem í engu eru réttlætanlegar,“ segir Ólafur.

Segir hann málsmeðferðina jafngilda í raun refsingu án dóms og laga. „Í þessari einhliða árás á mig var ekkert tillit tekið til þess að ríkið tók á sínum tíma hæsta tilboði í opnu söluferli, kaupverðið var greitt að fullu og engum blekkingum var beitt.“ Hafi tilboð S-hópsins verið metið hagstæðast jafnvel án aðkomu erlends banka.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.