Lífið

Rebekah Vardy lak öllu um persónulega hagi Rooney-fjölskyldunnar í The Sun

Stefán Árni Pálsson skrifar
Wayne Rooney og Jamie Vardy hafa leikið saman með enska landsliðinu og þykir málið gríðarlega vandræðalegt fyrir Vardy-hjónin.
Wayne Rooney og Jamie Vardy hafa leikið saman með enska landsliðinu og þykir málið gríðarlega vandræðalegt fyrir Vardy-hjónin. vísir/getty

Risamál er komið upp í breskum slúðurmiðlum og var það Coleen Rooney sem opnaði á málið með færslu á Twitter.

Gríðarlega mikið hefur verið fjallað um Coleen Rooney og Wayne Rooney á slúðurmiðlinum The Sun og hafa þau tjáð sig töluvert um rangan fréttaflutning á sínum samfélagsmiðlum.

Coleen er nú búin að finna út hver var að senda The Sun efni frá lífi hjónanna, sem búsett eru í Washington í dag. Wayne Rooney leikur þar með D.C. United í bandarísku MLS-deildinni.

Í færslunni segist Coleen Rooney vera með persónulegan Instagram-reikning þar sem hún samþykkir aðeins vini og vandamenn. Hún segir að sig hafi grunað að einhver innan þess fylgjendahóps væri að leka upplýsingum og var með eina sérstaka konu í huga.

Coleen ákvað því að „blokka“ alla nema umrædda manneskju og því gat hún ein séð færslurnar frá Coleen.

„Síðustu fimm mánuði hef ég verið að setja inn færslur sem eru í raun falskar og eiga ekki stoð í raunveruleikanum til að sjá hvað myndi gerast,“ segir Coleen Ronney í færslunni.

Til að mynda segist hún hafa logið því að vera á leiðinni í nýtt starf í sjónvarpi og að allt hafi verið á floti í kjallaranum á heimili hjónanna einn morguninn.

Allt var þetta sett á svið en rataði engu að síður á miðla The Sun. Aðeins ein kona gat vitað þetta og er það Rebekah Vardy, eiginkona Jamie Vardy, sem leikur með Leicester í ensku úrvalsdeildinni. Vardy og Rooney hafa verið samherjar með enska landsliðinu.

Breskir miðlar greina mikið frá málinu en sjálf hefur Rebekah Vardy tjáð sig um málið á Instagram-síðu sinni og neitar öllum sökum.

 
 

.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.