Innlent

Bensínþjófur slapp með sekt

Björn Þorfinnsson skrifar
Í öllum tilvikum var um að ræða þjófnað frá Olís.
Í öllum tilvikum var um að ræða þjófnað frá Olís. Fréttablaðið/Ernir
Héraðsdómur Suðurlands dæmdi í vikunni ungan mann til að greiða Olíuverzlun Íslands 67 þúsund króna skaðabætur auk dráttarvaxta fyrir að hafa ítrekað stolið bensíni frá fyrirtækinu.

Um er að ræða sjö mismunandi brot á fjögurra mánaða tímabili árið 2018. Alls heimsótti þjófurinn fimm bensínstöðvar Olís, dældi eldsneyti á bíl sinn og keyrði í burtu án þess að borga.

Olísstöðvarnar sem um ræðir eru við Álfabakka, Norðlingabraut, Álfheima, Gullinbrú og á Selfossi. Ekki kemur fram í dómnum af hverju ákærði valdi ætíð bensínstöðvar Olís en ekki samkeppnisaðila.

Fyrir dómi kom fram að ákærði hefði í apríl á þessu ári hlotið 30 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir margs konar umferðarlagabrot, þjófnað og vörslu á lítilræði af sterum. Var það mat dómara að bensínþjófnaðurinn hefði ekki leitt til þyngri refsingar þegar það mál var tekið fyrir og því þurfti ákærði aðeins að greiða andvirði eldsneytisins og dráttarvexti. Vexti slapp hann við vegna vanreifunar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×