Innlent

Tvöfalt fleiri konur mættu í fyrstu skimun

Atli Ísleifsson skrifar
Almennt fjölgaði komum kvenna í skimun fyrir leghálskrabbameini á tímabilinu um 19 prósent.
Almennt fjölgaði komum kvenna í skimun fyrir leghálskrabbameini á tímabilinu um 19 prósent. Getty
Þátttaka kvenna kvenna í skimun sem fá í fyrsta sinn boð um leit að brjósta- og leghálskrabbameini tvöfaldaðist frá 1. janúar til 31. júlí 2019 miðað við sama tímabil árið 2018.Þetta kemur fram í tilkynningu frá Krabbameinsfélaginu. Þar segir að almennt fjölgaði komum kvenna í skimun fyrir leghálskrabbameini á tímabilinu um 19 prósent og komum í skimun fyrir brjóstakrabbameinum fjölgaði um 24 prósent. Ekki er tekið fram um fjölda skimana.Í tilkynningunni segir að auglýsingar og hvatning Krabbameinsfélagsins um þátttöku í vinkonuhópi félagsins hafi skilað árangri og fjölgað komum í skimun.„Á síðasta ári brugðust margir vinkonuhópar jákvætt við ósk félagsins um samstarf í Bleiku slaufunni sem fól í sér að fá konur til að taka þátt í skimun og kynna sér forvarnir gegn krabbameinum. Í kjölfarið hafa vinkonuhóparnir reglulega fengið senda fræðslu- og hvatningarmola frá félaginu,“ segir í tilkynningunni.Krabbameinsfélagið stendur á þessu ári fyrir tilraunaverkefni og býður þeim konum sem fá í fyrsta skipti boð í skimun fyrir legháls- og brjóstakrabbameini, skimunina sér að kostnaðarlausu.„Félagið ákvað að ráðast í verkefnið vegna vísbendinga um að skoðunargjaldið hindri ákveðinn hóp kvenna í að nýta sér boð um skimun. Verkefnið hófst um áramót og árangur af því er afgerandi. Fjöldi kvenna sem hefur þegið boð um skimun fyrir krabbameinum í leghálsi og brjóstum hjá Leitarstöð Krabbameinsfélagsins í fyrsta sinn hefur meira en tvöfaldast miðað við sama tímabil í fyrra. Árangurinn er afar ánægjulegur og langt fram úr væntingum,“ segir í tilkynningunni.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.