Innlent

Saksóknarar á hlaupahjólum

Björn Þorfinnsson skrifar
Kolbrún Benediktsdóttir, saksóknari.
Kolbrún Benediktsdóttir, saksóknari. Fréttablaðið/Aðalheiður
Undanfarið hafa starfsmenn embættis héraðssaksóknara sést skjótast á milli staða í miðbænum á forláta rafmagnshlaupahjólum. Sérstaklega á milli Héraðsdóms Reykjavíkur í Lækjargötu og skrifstofu embættisins á Skúlagötu 17.

Fararskjótarnir eru liður í verkefni Umhverfisstofnunar sem nefnist Græn skref. Markmiðið er að draga úr umhverfisáhrifum í opinberum rekstri og auka þekkingu starfsfólks á umhverfismálum.

„Vinnan við innleiðingu aðgerða Grænna skrefa hófst í fyrra. Þetta er nokkuð viðamikið verkefni sem verður innleitt í nokkrum skrefum,“ segir Hólmsteinn Gauti Sigurðsson, lögfræðingur yfirstjórnar hjá embættinu.

Fyrir utan hlaupahjólin nefnir hann flokkun sorps og úrgangs, kaup á umhverfisvottuðum vörum og grænt bókhald sem dæmi um skref sem hafa verið tekin.

Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari segist ánægð með rafhlaupahjólið enda ekki aðeins umhverfisvænni ferðamáti en bíll heldur mun praktískari.

„Fyrir stutt erindi í Héraðsdóm Reykjavíkur getur verið mjög tímafrekt að fara á bíl. Rafhlaupahjólið er fullkomið fyrir styttri vegalengdir,“ segir Kolbrún.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×