Innlent

Sjálfstæðisflokkurinn stærstur en samt aldrei mælst minni

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Ráðherrarnir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir og Bjarni Benediktsson eru varaformaður og formaður Sjálfstæðisflokksins. Með þeim á mynd er Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins.
Ráðherrarnir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir og Bjarni Benediktsson eru varaformaður og formaður Sjálfstæðisflokksins. Með þeim á mynd er Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins. Vísir/vilhelm

Sjálfstæðisflokkurinn mælist með mest fylgi stjórnmálaflokka á Alþingi eða 18,3%. Það er þó minnsta fylgi sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur mælst með frá upphafi mælinga MMR.

Þetta er á meðal þess sem fram kemur í niðurstöðum könnunar MMR á fylgi stjórnmálaflokka og stuðning við ríkisstjórnina. Könnunin var framkvæmd dagana 9.-16. september og var heildarfjöldi svarenda 1045 einstaklingar.

Sjá einnig: Fylgi Sjálfstæðisflokksins ekki mælst minna síðan í hruninu



Samfylkingin mældist með næstmest fylgi, eða 14,8%, tæpum tveimur prósentustigum minna en við síðustu mælingu. Þá mældist stuðningur við ríkisstjórnina 43,7% samanborið við 38,8% í síðustu könnun.

Eins og áður segir mældist fylgi Sjálfstæðisflokksins 18,3% miðað við 19,1% í síðustu könnun. Fylgi Vinstri grænna mældist nú 12,8% en mældist 11,5% í síðustu könnun. Fylgi Pírata jókst einnig á milli kannana, fór úr 11,3% í 12,4% og þá bætti Framsóknarflokkurinn við sig og mælist nú með 11,8% fylgi miðað við 10,4% í síðustu könnun.

Fylgi Miðflokksins dalar og mældist nú 12,0% en 13,0% í síðustu könnun. Þá mældist Viðreisn með 10,2% fylgi miðað við 9,3% síðast. Flokkur fólksins stóð í stað milli kannana, mældist nú með 4,0% fylgi en áður 4,1%.

Töluverðar sviptingar hafa verið innan Sjálfstæðisflokksins undanfarin misseri. Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður flokksins, skipaði Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur í embætti dómsmálaráðherra fyrr í mánuðinum, sem sérfræðingar hafa sagt mögulegt tilefni til deilna meðal flokksmanna. Þá hefur Vísir fjallað um ólgu innan flokksins, einkum í ljósi þriðja orkupakkans sem samþykktur var á þingi í byrjun mánaðar.

Niðurstöður könnunar MMR má nálgast hér.


Tengdar fréttir

Fylgi Sjálfstæðisflokksins ekki mælst minna síðan í hruninu

Samkvæmt nýjasta Þjóðarpúlsi Gallup nýtur Sjálfstæðisflokkurinn 21,6 prósenta fylgis. Í nóvember 2008, eða í efnahagshruninu, var fylgi flokksins 20,6 prósent. Viðreisn bætir við sig tveimur prósentustigum á meðan fylgi annarra flokka helst svo til óbreytt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×