Innlent

Verði ekki skylt að auglýsa í dagblöðum

Kristinn Haukur Guðnason skrifar
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. Fréttablaðið/Anton brink
Fjármálaráðherra hefur sent inn til umsagnar breytingar á reglum um auglýsingar lausra starfa. Verði breytingarnar að veruleika verður ríkisstofnunum ekki lengur skylt að auglýsa laus störf í dagblöðum heldur aðeins á eigin vefsvæði, Starfatorgi.

Samkvæmt núverandi reglum skulu ríkisstofnanir auglýsa laus störf að minnsta kosti einu sinni hjá dagblaði sem er gefið út á landsvísu. Samkvæmt frumvarpinu væri stofnunum áfram heimilt að auglýsa í dagblöðum en fallið frá þessari skyldu.

Ríkisstofnanir verja á bilinu 200 til 250 milljónum króna árlega í birtingu auglýsinga. Þar af fer um þriðjungur til birtingar í dagblöðum en ekki liggur fyrir hversu stór hluti af því eru atvinnuauglýsingar.

Samkvæmt skýrslu menntamálaráðuneytisins um rekstrarvanda fjölmiðla frá árinu 2018 kom fram að hið opinbera væri stórkaupandi að auglýsingum í fjölmiðlum og mikilvægt væri að skilaboð stjórnvalda kæmust áleiðis til almennings í gegnum ólíka fjölmiðla. Í skýrslunni var jafnframt sagt mikilvægt að auglýsingakaup ríkisins yrðu gagnsæ og að hið opinbera mótaði sér heildstæða auglýsingastefnu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×