Innlent

Tveimur mönnum bjargað úr bát sem strandaði

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Mönnunum var bjargað um borð í TF EIR klukkan 02:52 í nótt.
Mönnunum var bjargað um borð í TF EIR klukkan 02:52 í nótt. vísir/vilhelm
Laust eftir miðnætti í nótt barst stjórnstöð Landhelgisgæslunnar neyðarkall frá tólf metra handfærabát sem hafði strandað rétt utan við Skála á sunnanverðu Langanesi. Voru tveir menn um borð í bátnum.

Að því er segir í tilkynningu frá Gæslunni var þyrlan send strax af stað auk björgunarbáta frá Þórshöfn og Bakkafirði og skipa sem voru í grennd við strandaðan bátinn.

Þá voru björgunarsveitir frá Raufarhöfn, Þórshöfn og Húsavík sendar landleiðina á staðinn.

Um klukkan 01:20 kom fiskibátur á svæðið en gat ekki athafnað sig á svæðinu. Þar var þó ágætis veður, bjart en nokkur sjór.

Um klukkan hálfþrjú í nótt kom svo björgunarbátur frá Bakkafirði á staðinn en sökum sjólags var ekki talið ráðlegt að reyna björgun frá sjó.

Þá voru aðstæður til björgunar frá landi ekki góðar vegna aðstæðna en strandstaður var undir bjargi.

Klukkan 02.35 var þyrlan TF EIR komin á vettvang og sautján mínútum síðar var búið að bjarga mönnunum um borð í þyrluna. Við birtingu verða aðstæður svo skoðaðar betur með tilliti til björgunar á bátnum.

Samkvæmt upplýsingum frá stjórnstöð Landhelgisgæslunnar er ekki vitað hvers vegna báturinn strandaði en rannsóknarnefnd sjóslysa mun fara með rannsókn málsins.

Hér fyrir neðan má sjá myndband af því þegar sigmaður Gæslunnar fór úr þyrlunni og niður í bátinn.

Klippa: Sigmaður Landhelgisgæslunnar fer í bát sem strandaði



Fleiri fréttir

Sjá meira


×