Innlent

Árneshreppur aldrei vinsælli hjá Íslendingum

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Aldrei fleiri Íslendingar hafa sótt Árneshrepp heim og í ár að sögn oddvita sveitarfélagsins.
Aldrei fleiri Íslendingar hafa sótt Árneshrepp heim og í ár að sögn oddvita sveitarfélagsins. Vísir7Stöð 2
Oddviti í einu minnsta byggðarlagi landsins segir ferðaþjónustuna á svæðinu blómstra þrátt fyrir ekki endilega jákvæða umfjöllun um svæðið á undanförum misserum. Tækifæri liggja í að efla ferðaþjónustuna með frekari afþreyingu á svæðinu.

Árneshreppur hefur mikið verið til umfjöllunar í fjölmiðlum vegna fyrirhugaðrar Hvalárvirkjunar en í aðdraganda síðustu sveitarstjórnakosninga skapaðist mikil umræða um fjölgun íbúa vegna lögheimilisflutninga til svæðisins. Sú umræða var ekki jákvæð og ekki hefur hún verið betri vegna deilu og kærumála vegna vegaframkvæmda og uppbyggingar fyrirhugaðrar virkjunar.

Oddviti hreppsins og eigandi Hótel Djúpuvíkur, segir Íslendinga aldrei hafa sýnt svæðinu eins mikinn áhuga.

„Til dæmis í fyrra, það var nú kosninga árið okkar og mikið talað um Árneshrepp þá í aðdraganda kosninga og eftir þær, og við fengum meira að Íslendingum þá hérna inn í sveitina en nokkurn tímann áður. Það er eiginlega sama sagan núna. Íslendingum hefur fjölgað frá því í fyrra, þannig að við erum mjög sátt,“ segir Eva Sigurbjörnsdóttir, oddviti í Árneshreppi og eigandi Hótel Djúpavíkur.

Eva Sigurbjörnsdóttir, oddviti í Árneshreppi.Vísir/Stöð 2

Stundum stútfullt í sumar

Hjá hótel Djúpavík eru fjórtán herbergi en þrír aðilar að auki bjóða upp á gistingu og þá hefur verið boðið uppá svefnpokagistingu í skólanum.

„Þetta hefur stundum bara verið stútfullt í sumar,“ segir Eva.

Eva segir að tækifæri liggi í ferðaþjónustunni á svæðinu.

„Við þurfum bara aðeins að setja niður fyrir okkur hvað okkur finnst vanta. Það vantar aðeins afþreyingu,“ segir Eva.

Eva segir að reynt sé að koma upp ákveðnum venjum og hefðum til framtíðar litið. Gróflega reiknað segir hún að á bilinu fjögur til fimmþúsund manns hafi komið í hreppinn í sumar.

Vegurinn um Veiðileysu hefur jafnan þótt erfiður yfirferðar.Vísir/Stöð 2

Vona að mokað verði oftar í vetur

Nú styttist í veturinn, það er að detta í september, haustið nálgast. Hvernig sjáið þið fyrir ykkur veturinn? Haldið þið að þið verðið innilokuð þegar það fer að snjóa?

„Það hefur nú verið svoleiðis áratugum saman, en við erum alltaf svo bjartsýn, að minnsta kosti ég. Ég ætla að reyna að fá eitthvað rýmri mokstursreglur fyrir veturinn heldur en verið hefur, ég er alveg ákveðin í því. Ertu búin að ræða það við ráðherra? Nei ekki ennþá, en hann var nú hérna í sumar samgönguráðherra og hann var að tala um svona hluti eru framundan og vonandi verður það fljótlega. Til dæmis Veiðileysuhálsinn sem að við erum búin að vera berjast við í að minnsta kosti þrjátíu ár,“ segir Eva.

 


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.