Innlent

Rafmagn komið á í Reykjavík og Kópavogi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Rauða svæðið á kortinu er það svæði sem er rafmagnslaust.
Rauða svæðið á kortinu er það svæði sem er rafmagnslaust. veitur
Uppfært kl. 07:37: Að því er segir í tilkynningu frá Veitum er rafmagn nú komið aftur á alls staðar.

Vegna háspennubilunar er rafmagnslaust í Hlíðunum í Reykjavík og nágrenni sem og í Fossvogsdalnum og nágrenni í Kópavogi.

Vegfarendur nú í morgunsárið ættu að hafa það sérstaklega í huga að umferðarljós eru því víða óvirk, til dæmis á gatnamótum Lönguhlíðar og Miklubrautar sem og á gatnamótum Njarðargötu og Hringbrautrar.

Í tilkynningu frá Veitum segir að unnið sé að viðgerð og vonast sé til þess að rafmagn verði komið á aftur innan tíðar.

„Við bendum þér á að slökkva á þeim rafmagnstækjum, sem ekki slökkva á sér sjálf og geta valdið tjóni þegar rafmagn kemur á að nýju. Það á sérstaklega við um eldavélar, mínútugrill og fleiri hitunartæki. Eins ráðleggjum við þér að slökkva á viðkvæmum tækjum á borð við sjónvörp,“ segir á vef Veitna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×