Innlent

Sjúkra­tryggingum falið að gera þjónustu­samning við Ljósið

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Myndin er tekin í líkamsræktaraðstöðunni í húsnæði Ljóssins við Langholtsveg fyrr á árinu.
Myndin er tekin í líkamsræktaraðstöðunni í húsnæði Ljóssins við Langholtsveg fyrr á árinu. vísir/vilhelm
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, hefur falið Sjúkratryggingum Íslands að gera þriggja ára þjónustusamning við Ljósið um endurhæfingarþjónustu við fólk sem hefur greinst með krabbamein.Frá þessu er greint á vef stjórnarráðsins en þar kemur jafnframt fram að í fjárlagafrumvarpi næsta árs séu 220 milljónir eyrnamerktar Ljósinu.Starfsemi Ljóssins hefur hingað til byggt á styrkframlagi frá Vinnumálastofnun og heilbrigðisráðuneytinu til eins árs í senn sem og söfnunarfé en nú verður breyting á fyrirkomulaginu hvað varðar framlög hins opinbera.Ljósið var stofnað árið 2006. Markmið þess hefur frá upphafi verið að sinna endurhæfingu og veita þeim stuðning sem greinst hafa með krabbamein og aðstandendum þeirra.„Ljósið er viðurkennd heilbrigðisstofnun samkvæmt skilgreiningu laga og heyrir undir eftirlit Embættis landlæknis. Þjónusta Ljóssins er þverfagleg og einstaklingsmiðuð og felst m.a. í iðjuþjálfun, sjúkraþjálfun, sálfræðiþjónustu, næringarráðgjöf og félagslegri virkni,“ segir í tilkynningu á vef stjórnarráðsins.Þar er einnig haft eftir ráðherra að mikið sé í húfi að tryggja rekstrargrundvöll þeirrar þjónustu sem Ljósið veitir.„„Árlega sækja á annað þúsund einstaklinga sér þjónustu hjá Ljósinu. Því er mikið í húfi að tryggja rekstrargrundvöll þessarar mikilvægu þjónustu þannig að notendur og starfsfólk búi við það lágmarksöryggi sem verður að vera fyrir hendi í svona starfsemi“ segir Svandís Svavarsdóttir.


Tengdar fréttir

Fékk nýja sýn á lífið

Eydís Ása Þórðardóttir er 26 ára. Hún greindist með brjóstakrabbamein á sextándu viku meðgöngu í fyrrasumar. Það var gríðarlegt áfall fyrir Eydísi Ásu og aðstandendur hennar sem nutu frábærrar aðstoðar Ljóssins.

Dreymir um 2000 mánaðarlega Ljósavini

Fyrr í þessum mánuði fór af stað vitundarvakning Ljóssins. Ljósið er endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir krabbameinsgreinda og aðstandendur þeirra.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.