Innlent

Lilja fundaði með danska mennta­mála­ráð­herranum um fram­tíð hand­ritanna

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Lilja Alfreðsdóttir og Ane Halsboe-Jørgensen.
Lilja Alfreðsdóttir og Ane Halsboe-Jørgensen. stjórnarráðið
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, fundaði í dag með danska menntamálaráðherranum, Ane Halsboe-Jørgensen, í Kaupmannahöfn. Þá heimsótti ráðherra einnig Árnasafn.  

Á fundinum lýsti Lilja yfir áhuga Íslendinga á að endurskoða skiptingu handritanna, meðal annars úr safni Árna Magnússonar en að því er fram kemur í tilkynningu frá menntamálaráðuneytinu eru um 700 íslensk handrit enn varðveitt í Danmörku.

„Ráðherrarnir sammæltust um að hefja undirbúning að stofnun samráðsnefndar um sameiginleg menningarverðmæti þjóðanna.

Nefndin mun fá það verkefni að rýna og efla samstarf þjóðanna á þessu sviði, móta tillögur að framtíðarfyrirkomulagi um varðveislu þeirra handrita sem nú eru í Danmörku, huga að því hvernig þjóðirnar geti stutt hvor aðra í ræktun móðurmála á tímum alþjóðavæðingar og hvernig nýta megi sameiginlegan menningarf Íslands og Danmerkur á þeirri vegferð,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins þar sem jafnframt er haft eftir Lilju að fundurinn hafi verið uppbyggilegur.

„Við áttum uppbyggilegan fund sem ég vona að beri góðan ávöxt í framtíðinni. Það hefur orðið viðhorfsbreyting á þeim tæpu 50 árum sem liðin eru frá því að fyrstu handritunum var skilað heim til Íslands – bæði hér í Danmörku og heima á Íslandi. Ég tel mikilvægt á þessum tímapunkti að við ræðum framtíð handritanna og fagna því að Danir séu reiðubúnir til viðræðna,“ segir Lilja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×