Innlent

Fljúgandi fuglahræður gefa góða raun á Norðurgarði

Kjartan Kjartansson skrifar
Fuglahræðurnar eru bundnar við möstur ofan á fiskvinnsluhúsi Brims á Norðurgarði.
Fuglahræðurnar eru bundnar við möstur ofan á fiskvinnsluhúsi Brims á Norðurgarði. Vísir/Vilhelm
Tvær fálkalaga fuglahræður blakta nú yfir fiskvinnsluhúsi Brims á Norðurgarði í Reykjavík. Framleiðslustjóri Brims segir að hræðurnar hafi verið settar upp fyrir tveimur vikum og hafi gefið góða raun gegn máfum til þessa.

Gísli Kristjánsson, framleiðslustjóri, segist ekki vita til þess að fuglahræður af þessu tagi hafi verið notaðar á Íslandi áður. Hugmyndin hafi kviknað þegar tæknistjóri fyrirtækisins sá þær í Danmörku.

Máfurinn á það til að sækja í hafnir þar sem verið er að landa fiski og eru hræðurnar fyrst og fremst hugsaðar til að fæla hann frá við löndun á bryggjunni við fiskvinnsluna.

„Við höfum verið að nota ýmsar aðrar lausnir eins og fuglahljóð í hátölurum og strengja net yfir athafnasvæðið. Við ákváðum bara að prófa þetta. Ég held að það megi alveg segja það að það hafi gefið ágætis raun,“ segir Gísli.

Fuglahræðan á að vera í laginu eins og fálki og fæla máfa frá bryggjunni.Vísir/EPA
Fréttin hefur verið uppfærð.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.