Lífið

Hættur að grína fyrir Gísla Martein

Stefán Árni Pálsson skrifar
Atli Fannar verður ekki með innslög sín í Vikunni á RÚV í vetur.
Atli Fannar verður ekki með innslög sín í Vikunni á RÚV í vetur. vísir/andri marinó.
„Það stóð ekki til að byrja í nýrri vinnu, ári eftir að ég hóf störf hjá Hugsmiðjunni. Þar er ég búinn að skemmta mér konunglega og ég er stoltur af verkefnunum sem ég tók þátt í þar. Í sumar auglýsti RÚV hins vegar starf sem togaði svo svakalega í mig að ég gat ekki sleppt því að sækja um,“ segir fjölmiðlamaðurinn Atli Fannar Bjarkason sem hóf í dag störf hjá RÚV sem verkefnastjóri samfélagsmiðla hjá stofnuninni.

Hann hefur undanfarin misseri starfað hjá markaðsteymi Hugsmiðjunnar. 

„Þetta leggst hrikalega vel í mig enda hálfgert draumastarf. Ég hef lengi látið mig dreyma um að fá að vera með fingurna í að miðla efninu frá RÚV á samfélagsmiðlum og tækifærin eru hreinlega yfirþyrmandi.“

Hættir í Vikunni

Undanfarin ár hefur Atli Fannar verið með innslög í þættinum Vikan á föstudagskvöldum á RÚV en í vetur hverfur Atli af skjánum.

„Ég verð ekki með innslögin mín hjá Gísla Marteini í vetur. Þau eru að hrista aðeins upp í þættinum og það er ekkert eðlilegra, þar sem hann hefur verið með sama sniði í þrjú ár.“

Berglind Pétursdóttir, Gísli Marteinn Baldursson og Atli Fannar Bjarkason hafa myndað teymið í kringum spjallþáttinn Vikan.RÚV
Samkvæmt heimildum Vísis sóttu 120 manns um starfið sem verkefnastjóri samfélagsmiðla hjá RÚV.

„Ég vona að fólk haldi ekki niðri í sér andanum í dag og bíði eftir einhverjum bombum. Velgengni á samfélagsmiðlum snýst um stöðugleika þannig að vonandi má fólk bara búast við að því góða efni sem er framleitt í þvílíku magni á RÚV á hverjum einasta degi verði miðlað þannig að það komi fyrir augu sem flestra. Kannski prófum við okkur áfram í framsetningu og kannski gerum við eitthvað nýtt. Þetta kemur allt saman hægt og rólega í ljós.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×