Innlent

Foreldrar sjá börnin sín í nýju ljósi

Kristjana Björg Guðbrandsdóttir skrifar
Í fyrstu fara þau með barnið í vatnið eins og það sé þúsund ára kínverskur postulínsvasi, segir Snorri sem segir börnin koma foreldrum sínum á óvart.
Í fyrstu fara þau með barnið í vatnið eins og það sé þúsund ára kínverskur postulínsvasi, segir Snorri sem segir börnin koma foreldrum sínum á óvart. Fréttablaðið/Anton brink
Snorri Magnússon, þroskaþjálfi og íþróttakennari, hefur helgað líf sitt kennsluaðferðum í ungbarnasundi og hefur tekið á móti þúsundum foreldra með hvítvoðunga sína í nærri þrjá áratugi. Lífi hans og störfum eru gerð skil í nýrri heimildarmynd, Kaf, sem verður frumsýnd þann 5. september. Að heimildarmyndinni standa kvikmyndagerðarkonan Hanna Björk Valsdóttir og myndlistarkonurnar Elín Hansdóttir og Anna Rún Tryggvadóttir.

Hringlaga húsið við Skálatúnsheimilið í Mosfellsbæ er forvitnilegt en lætur þó lítið yfir sér. Frá húsinu er sýn bæði til fjalla og hafs. Inni er litríkt og hlýtt. Í hringlaga lauginni er hærra hitastig en gengur og gerist svo ungbörnunum líði vel í vatninu.

Hér ríkir gleði

Foreldrar eru að klæða börn sín eftir vel heppnaða æfingu með Snorra. Þau virðast róleg og sæl og hjala værðarlega. Snorri útskýrir að æfingin sé klukkutíma löng og börnin séu þreytt á eftir, sofi og nærist vel.

„Hér vil ég vera, það er mín lífsfylling að vinna með ungbörnum og foreldrum þeirra. Hér ríkir gleði,“ segir hann. Hann er í litríkum stuttbuxum, sólbrúnn eftir sumarið og segir blaðamanni að líklega hafi hann verið ofan í sundlaug í þrjá til fjóra tíma á dag síðustu fimmtíu árin. „Og ég sé ekki eftir þeim tíma þó að kennslan taki mikla orku, bæði líkamlega og andlega. Því þetta er gefandi starf og skemmtilegt.“

Hann segist hafa tekið vel í beiðni kvikmyndagerðarkvennanna þriggja. „Þær voru í um það bil ár að taka myndina og viðtöl sem henni tengjast. Hún verður frumsýnd daginn sem mamma hefði orðið 95 ára gömul, en það vita kvikmyndagerðarkonurnar ekki. Þetta er skemmtileg staðreynd því mömmu heitinni bregður fyrir í myndinni,“ segir Snorri frá.

Það vekur furðu margra hversu sterk börnin eru.

Neðanjarðarhreyfing

Hann er tvíburi, bróðir hans er menntaður sem húsasmiður og þeir búa ekki langt hvor frá öðrum í Garðabænum. „Það eru bara nokkur hundruð metrar á milli okkar,“ segir Snorri og nefnir frekari líkindi með lífi þeirra. „Konan mín er flugumferðarstjóri en var flugfreyja þegar hún var yngri. Konan hans Viðars er einmitt flugfreyja,“ segir hann og hlær. „Svona er þetta tvíburalíf, við erum eineggja tvíburar og ég á sjálfur tvíburadætur en upphaf æfinganna hér í lauginni má rekja til fæðingar þeirra.“

Snorri hóf vatnsþjálfunina í Skála­túnslaug árið 1990 og lokaverkefnið hans frá Íþróttakennaraskóla Íslands fjallaði um gildi ungbarnasunds.

„Ég var þá alveg tilbúinn til að byggja upp æfingar í vatni fyrir ungbörn en fékk enga foreldra til þess að prófa. Það þorði því enginn og fólk var smeykt við að koma með börnin svo ung, ég vildi nefnilega helst fá börnin þriggja til fjögurra mánaða gömul til mín. Ég ákvað því að reyna þetta á mínum eigin börnum en af því við áttum tvíbura vorum við lengur á fæðingardeildinni en ella. Ég ræddi við aðra á deildinni um hverju ég væri að stefna að og nokkrum foreldrum þar leist vel á þetta og ákváðu að koma,“ segir Snorri og segir að frá þeim tíma hafi ungbarnasundið verið nokkurs konar neðanjarðarhreyfing.

„Ég var með lítinn hóp í byrjun og svo smá bættist í hópinn með tímanum. Nú kenni ég átta hópum í hverri viku og það komast því miður ekki allir að,“ segir hann.

Hann segir orðið ungbarnasund ef til vill villandi, því æfingarnar í lauginni hafi lítið með raunverulegt sund að gera.

„Ég þurfti að kalla þetta eitthvað á sínum tíma og ákvað að kalla þetta ungbarnasund. Ég vissi auðvitað vel sjálfur að þetta fjallaði ekki um sund nema að því leyti að ég ætlaði að nota sundlaugina. Það sem ég hafði í huga var að vinna með hreyfiþroskann og samveru barnanna með foreldrum sínum.“

Í vatninu eiga börnin auðveldara með að hreyfa sig og því meiri möguleika á að örva hreyfifærnina.

„Hér er góður hiti í lauginni og jákvætt umhverfi. Hér ríkja rólegheit, gleði og börnin eiga að finna til öryggis. Ég segi stundum bæði í gríni og alvöru að það sé ekki leyfilegt að gráta í lauginni. En auðvitað gráta börn, þau geta verið illa upplögð eða svöng og það er mjög mikilvægt að svara því alltaf. Og það má alltaf fara upp úr lauginni. Foreldrar ættu í raun alltaf að svara gráti barna sinna, hvort sem þau eru hér hjá mér eða annars staðar. Ég trúi að það sé mikilvægt til að byggja upp traust. Jafnvel þótt barnið gráti yfir því að vera klætt í föt eða eitthvað slíkt þá hjálpar að foreldrið tali við barnið og segi eitthvað huggandi við það um aðstæðurnar.



Klippa: KAF - sýnishorn

Góð áhrif á geðtengsl

Eitt af því sem hefur seinna komið í ljós er að æfingar sem þessar hafa góð áhrif á geðtengsl foreldra og barna. Foreldrar eru hér með börnunum sínum og það er mikil nánd og líkamleg snerting en í ögrandi og örvandi umhverfi. Þannig læra börnin að treysta.“

Hjá Snorra eru foreldrar með börn sín allt niður í tveggja mánaða gömul en vel þekkt eru ósjálfráð viðbrögð ungbarna þegar þau eru sett í vatn. Þau framkalla sundhreyfingar og geta kafað. Kafviðbragð er þannig að ef vatn skellur á andliti eða vitum barnsins þá lokast fyrir öndunarveginn og það heldur niðri í sér andanum í um 3-5 sekúndur. Þetta viðbragð er mjög sterkt fyrstu mánuðina. Áður var talið að börnin misstu þessi viðbrögð í kringum sex mánaða aldurinn en Snorri segir annað hafa komið í ljós. Það sé vel hægt að þjálfa eldri börn.

„Áður var talið að það þyrftu allir að byrja fyrir sex mánaða aldurinn, en það er hægt að byrja seinna. Það er bara spurning hvernig maður nær til eldri barna því þau vita alveg hvað þau vilja ekki. Þekkja foreldra sína en treysta ekki þessum nýja karli. En það getur alveg gengið vel en gengur hægar fyrir sig í byrjun,“ segir Snorri.

Snorri Guðmundsson ungbarnasundskennari

Með postulínsvasa

Eitt af því sem drífur Snorra áfram og gefur honum lífsfyllingu er vellíðan mæðra sem koma með börn sín. „Það má segja að eitt af mörgu sem gefur mér þá lífsfyllingu að vinna með „mömmum“, það eru vísbendingar um, samkvæmt athugunum, að þessi samvera mæðra og í samveru með öðrum foreldrum auki líkur á að mæðrum gangi betur að koma sér upp úr fæðingarþunglyndi.

Fæðingarþunglyndi hrjáir um 14 prósent mæðra hér á Íslandi. Það er snerting, augnsambandið og röddin sem stuðla að sterkum geðtengslum og börn hafa frumkvæði að tjáskiptum við umhverfi sitt, og þá er bara spurningin hvort foreldrar þeirra séu tilbúnir að svara börnum sínum,“ segir hann.





Snorri með börnum og foreldrum þeirra í vikunni. Fréttablaðið/Anton brink
„Ég hef alltaf haft trú á þessu,“ segir Snorri.

„Ég veit að foreldrar koma með sína dýrmætustu eign til mín í vatnið. Og í fyrstu fara þau með barnið í vatnið eins og það sé þúsund ára kínverskur postulínsvasi. Smám saman finna foreldrarnir hins vegar að börn þeirra eru sterkari og hafa meira frumkvæði að samskiptum en þá grunar. Börnin koma foreldrum sínum á óvart. Þegar þau standa og kafa og sýna styrk sinn þá verður til nýr skilningur. Foreldrarnir verða öruggari og sjá að börnin þeirra eru ekki eins brothætt.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×