Fótbolti

Rúnar Már með bæði mark og stoðsendingu í Íslendingaslag í Evrópudeildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rúnar Már Sigurjónsson í báráttu við N'Golo Kanté í leik Íslands og Frakklands í undankeppni EM 2020 sem fram fór á Stade de France fyrr á þessu ári.
Rúnar Már Sigurjónsson í báráttu við N'Golo Kanté í leik Íslands og Frakklands í undankeppni EM 2020 sem fram fór á Stade de France fyrr á þessu ári. Getty/Aude Alcover

Rúnar Már Sigurjónsson og félagar í Astana frá Kasakstan eru í frábærri stöðu eftir 3-0 sigur á BATE Borisov frá Hvíta Rússlandi í fyrri leik liðanna í umspili um sæti í riðlakeppni Evrópudeildarinnar.

Rúnar Már var áfram á skotskónum í Evrópudeildinni og var einnig með stoðsendinguna í fyrsta marki leiksins.

Seinni leikur liðanna fer fram í Hvíta-Rússlandi í næstu viku en það lið sem hefur betur tryggir sér sæti í 48 liða riðlakeppni Evrópudeildarinnar í vetur. Þar getur það lið mætt liðum eins og Manchester United, Arsenal, Porto, Sevlla, CSKA Moskvu og Roma.

Rúnar Már hefur nú skorað fjögur mörk í Evrópudeildinni í ár en hann skoraði þriðja mark Astana úr vítaspyrnu á 52. mínútu.

Rúnar hefur skorað í öllum þremur heimaleikjum Astana í forkeppni Evrópudeildarinnar og þetta var annar heimaleikurinn í röð þar sem hann er bæði með mark og stoðsendingu.

Marin Tomasov kom Astana í 1-0 á 23. mínútu eftir stoðsendingu frá Rúnari Má og einni mínútu fyrir hálfleik bætti Yuriy Logvinenko öðru marki eftir stoðsendingu frá Tomasov.

Willum Þór Willumsson kom inn á sem varamaður hjá BATE Borisov á 61. mínútu en hann kom inn fyrr Hvít-Rússann Dmitri Baga í stöðunni 3-0 fyrir Astana.

Astana-liðið hefur verið mjög erfitt heim að sækja í Evrópudeildinni í sumar en liðið hefur unnið þrjá heimaleiki sína með markatölunni 12-2. Marin Tomasov hefur skorað fimm af þessum mörkum og Rúnar Már fjögur.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.