Lífið

Sundur­grafin Óðins­gata kemur í veg fyrir vöfflu­kaffi borgar­stjóra

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Þessa mynd birti Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, á Twitter-síðu sinni á Menningarnótt árið 2016 þegar hann hélt vöfflukaffi.
Þessa mynd birti Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, á Twitter-síðu sinni á Menningarnótt árið 2016 þegar hann hélt vöfflukaffi.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, hefur í gegnum árin haft það fyrir sið að bjóða borgarbúum í vöfflukaffi heima hjá sér á Óðinsgötu á Menningarnótt.

Ekkert vöfflukaffi verður hins vegar á morgun vegna framkvæmda sem standa yfir í götunni en Óðinsgatan er sundurgrafin eins og borgarstjóri orðaði það í beinni útsendingu í fréttum Stöðvar 2 í kvöld.

Þá var rætt við hann og Björgu Jónsdóttur, verkefnastjóra Menningarnætur, um morgundaginn þegar fjöldi menningarviðburða verður víðs vegar um borgina, flestir þeirra í miðbænum.

„Öll miðborgin er undir þannig að það er nóg um að vera og ég mæli með því að fólk skoði dagskrána inn á menningarnott.is eða taki bara strætó niður í bæ, gangi um og láti koma sér á óvart. Það er fullt í boði,“ segir Björg.

Dagur tekur undir með Björgu um að láta koma sér á óvart.

„Það sem mér finnst svo skemmtilegt við Menningarnótt er þegar íbúar sjálfir og fyrirtæki brydda upp á einhverju óvæntu. Það eru margar götur sem hafa tekið sig saman um markaði, þeir eru úti um allt. Alls konar hátíðir, þeir sem vilja dansa fara út á Hagatorg, þeir sem vilja fara á tónleika geta farið á þá um alla miðborgina eiginlega. Svo er líka bara svo skemmtilegt að hitta gamla kunningja eða eignast nýja vini til dæmis í karókí hjá útitaflinu þannig að það eru ótal möguleikar,“ segir Dagur en viðtal Jóhanns K. Jóhannssonar, fréttamanns, við hann og Björgu má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.

Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.