Innlent

Enginn óútskýrður launamunur

Birna Dröfn Jónasdóttir skrifar
Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar.
Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar.
Samkvæmt niðurstöðum viðhaldsúttektar á jafnlaunakerfi Hafnarfjarðarbæjar er óútskýrður launamunur ekki til staðar í bænum.

Sveitarfélagið fékk jafnlaunavottun fyrir tveimur árum en þá var frávik 4,8 prósent körlum í hag. Síðan þá hefur frávikið lækkað niður í tvö prósent, enn körlum í hag.

Viðhaldsvottun var gerð nú í ágúst af faggildum vottunaraðila og sýndu niðurstöður fram á að engan óútskýrðan launamun sé að finna í störfum sveitarfélagsins ásamt því að staðfesta að Hafnarfjarðarbær uppfylli enn þær kröfur sem lagðar eru fram um jafnlaunavottun sveitarfélaga.

Hafnarfjarðarbær var fyrsta sveitarfélagið á Íslandi til að fá jafnlaunavottun og jafnlaunamerkið frá velferðarráðuneytinu í ágúst 2017.

„Við höfum tekið jafnlaunavinnu okkar mjög alvarlega og afraksturinn hefur ekki látið á sér standa. Óútskýrður launamunur heyrir nú sögunni til og þróun í kynbundnum launamun í þessu langtímaverkefni mjög jákvæð á stuttum tíma. Árangurinn er afrakstur vinnu stjórnenda sveitarfélagsins og hefur verið einhugur innan hópsins um að ná þessu markmiði,“ segir Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar. Þetta kemur fram í í fréttatilkynningu frá Hafnar­fjarðarbæ. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×