Innlent

Engin ákvörðun tekin um að blása af flugeldasýninguna

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Flugeldasýningin kostar um fjórar milljónir króna.
Flugeldasýningin kostar um fjórar milljónir króna. Vísir/Vilhelm
Borgarstjórinn í Reykjavík segir flugeldasýninguna á Menningarnótt mjög sameinandi. Engin ákvörðun hafi verið tekin um að hætta henni. Til umræðu hefur verið innan borgarkerfisins þar sem litið hefur verið til þess að slaufa sýningunni með tilliti til umhverfissjónarmiða.

Greint var frá því í fréttum Stöðvar 2 í júní að flugeldasýningin á Menningarnótt yrði mögulega sú síðasta í röðinni. Menningarnótt fór fram í 24. skiptið á laugardaginn og lauk venju samkvæmt með flugeldasýningu.

Arna Schram, sviðsstjóri menningar- og ferðamálasviðs hjá Reykjavíkurborg, sagði í fréttum okkar í júní að það væri gott og hollt að hefja þessa umræðu.

Burtséð frá umhverfisáhrifum sparist um fjórar milljónir króna við að sleppa flugeldasýningu á menningarnótt.

„Það er hægt að gera ýmislegt annað við þá fjármuni, spara þá eða nýta þá í aðra menningartengda starfsemi, aðra viðburði eða verkefni sem borgarbúar og aðrir geta notið,“ sagði Arna.

Guðmundur Birgir Halldórsson, verkefnastjóri viðburða hjá Reykjavíkurborg, segir í Morgunblaðinu í dag enn óljóst hvort flugeldasýning verði á næsta ári. Verði hún slegin af þurfi annar hápunktur að koma í staðinn.

„Þetta er bara á grunnumræðustigi svo þetta er ekki komið í neinn farveg,“ segir Guðmundur. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir sýninguna mjög sameinandi og engin ákvörðun verið tekin um að hætta henni á næstunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×