Innlent

Esther fyrsti kjörni ungmennafulltrúi Íslands hjá SÞ

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Esther Hallsdóttir er mannfræðingur og verkefnastjóri hjá UNICEF á Íslandi.
Esther Hallsdóttir er mannfræðingur og verkefnastjóri hjá UNICEF á Íslandi. Mynd/Aðsend.

Esther Hallsdóttir var kjörin ungmennafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði mannréttinda á fulltrúaráðsfundi Landssambands ungmennafélaga (LUF), sem fram fór á Háskólatorgi Háskóla Íslands í kvöld.

Alls voru 10 fulltrúar aðildarfélaga LUF í framboði á fundinum. Esther, fulltrúi UE, hlaut kjör með meirihluta atkvæða, en kosið var í tveimur umferðum.

Esther er verkefnastjóri UNICEF á Íslandi og menntaður mannfræðingur. Þá hefur hún starfað sem sjálfboðaliði hjá Rauða krossi Íslands og auk þess að hafa verið í hagsmunabaráttu stúdenta hjá Stúdentaráði Háskóla Íslands.

Í framboðsræðu sinni talað Esther fyrir mikilvægi þess að vinna eftir þeirri stefnu sem ungmenni hafa sameiginlega mótað á vettvangi LUF einkum þegar kemur að því að tryggja þátttökurétt.

„Við erum loksins að fá tækifæri til að koma hagsmunamálum íslenskra ungmenna á framfæri á þessum vettvangi. Að hafa í fyrsta sinn fulltrúa á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna er mikill sigur fyrir ungmenni á Íslandi. Ég er þakklát fyrir traustið sem mér er sýnt og hlakka til að vinna með LUF að því að setja þátttöku ungmenna og önnur brýn mál í forgrunn,” er haft eftir Esther í tilkynningu um kjör hennar.

Esther kemur til með að sækja allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í New York í september og taka þátt í störfum þess í umboði íslenskra ungmenna. Þátttaka ungs fólks í ákvarðanatöku og stefnumótun er ein af megináherslum Sameinuðu þjóðanna og þess vegna hafa aðildarríki um árabil verið hvött til að skipa ungmennafulltrúa sem veita sérfræðiþekkingu, innsýn og nauðsynlega ráðgjöf þegar kemur að sjálfbærri þróun. Er þetta í fyrsta sinn sem Ísland skipar slíkan fulltrúa.

Skipun ungmennafulltrúans og þátttaka hans á aðalþinginu er samstarfsverkefni Landssambands ungmennafélaga, félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og Utanríkisráðuneytisins, sem kostar verkefnið.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.