Innlent

Þrír slasast eftir grjóthrun í Reynisfjöru

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Úr Reynisfjöru í dag.
Úr Reynisfjöru í dag. Vísir/Jóhann K.
Búið er að loka austasta hluta Reynisfjöru, þeim sem næstur er „dröngunum úti í sjó,“ eins og Sigurður Sigurbjörnsson, varðstjóri hjá lögreglunni í Vík, lýsir því.

Ástæðan er grjóthrun í dag og í gær, sem slasað hefur þrjá. Þeirra á meðal var barn sem slasaðist á fæti og ferðamaður sem fékk gat á höfuðið, en meiðslin eru þó ekki talin alvarleg.

Sigurður kann fáar skýringar á því hvað gæti útskýrt grjóthrunið. Bergið sé þó laust í sér og því ekki fordæmalaust að það brotni úr hömrunum. Hann segist að sama skapi ekki vita hversu lengi lokunin mun vara, lögreglan á Suðurlandi muni greina frá því þegar það liggur fyrir.

Lögreglumenn strengdu borða þvert yfir fjöruna á fjórða tímanum í dag til að marka af lokaða svæðið, eins og sjá má á myndinni hér að ofan. Sigurður segir þó að ferðamenn hafi ekki látið sér segjast, þeir hafi jafnvel klofað yfir gula borðann meðan lögreglumenn voru enn að athafna sig. „Ég veit því ekki hvort við náum að loka svæðinu algjörlega, en við erum að minnsta kosti að reyna,“ segir Sigurður.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.