Innlent

Segir fjarstæðukennt að halda því fram að höfðað verði skaðabótamál gegn íslenska ríkinu

Elín Margrét Böðvarsdóttir og Eiður Þór Árnason skrifa
Það er fjarstæðukennt að halda því fram að höfðað verði skaðabótamál gegn íslenska ríkinu, heimili það ekki lagningu sæstrengs til landsins. Þetta segir forstöðumaður Alþjóða- og Evrópuréttarstofnunar Háskólans í Reykjavík. Ekki eru áformaðir fleiri fundir um þriðja orkupakkann í utanríkismálanefnd áður en málið verður afgreitt á Alþingi.

Flestir þeirra sem hafa kvatt sér hljóðs um þriðja orkupakkann eru sammála um að ekkert er í honum sem skyldar ríkið til að heimila lagningu sæstrengs. Aftur á móti var sumum af gestum utanríkismálanefndar sem fundaði í dag tíðrætt um að ríkið gæti þó átt yfir höfði sér skaðabótamál, standi það í vegi fyrir slíkum áformum.

Var það meðal annars byggt á rökum um fjórfrelsið og skuldbindingar um frjáls vöruviðskipta innan evrópska efnahagssvæðisins. Bjarni Már Magnússon, lagaprófessor við HR og forstöðumaður Alþjóða- og Evrópuréttarstofnunar HR segir það óþarfa áhyggjur:

„Það er enginn réttur til staðar til að leggja sæstreng. Þar af leiðandi er ekki hægt að fara í skaðabótamál. Þú getur ekki fengið skaðabætur fyrir eitthvað sem þú átt ekki rétt á. Hver heilvita einstaklingur skilur það.“

28. ágúst næstkomandi kemur alþingi saman til að ræða þingsályktunartillöguna. Þann annan september verða svo greidd atkvæði um þriðja orkupakkann.

Ekki verða haldnir fleiri fundir í utanríkismálanefnd um þriðja orkupakkann

Gerir þú ráð fyrir að boða annan fund í utanríkismálanefnd varðandi orkupakkann áður en þingstubburinn svokallaði verður í lok mánaðar?

„Nei, nú höfum við orðið við þeim samkomulagsatriðum sem samið var um í vor að halda fundi hér og taka til alla þá sérfræðinga og aðila sem að óskað var eftir fyrir nefndina og við höfum fengið enn þá skýrari svör ef eitthvað er, staðfestingu á því að málið var fullrannsakað í vor og við þurfum ekki að halda fleiri fundi í nefndinni,“ sagði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður utanríkismálanefndar.

Ólafur Ísleifsson, þingmaður Miðflokksins, telur málið ekki útrætt. „Ég er búinn að biðja um fund í atvinnuveganefnd um þetta efni nákvæmlega þar sem fulltrúum Orkunnar okkar sem hafa lagt fram viðamikla skýrslu yrði gefinn kostur á því að kynna þá skýrslu og svara spurningum nefndarmanna.“

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×