Innlent

Olíuleki eftir að tengivagn valt í Hvalfirði

Jóhann K. Jóhannsson, Andri Eysteinsson og Vésteinn Örn Pétursson skrifa
Af vettvangi.
Af vettvangi. Vísir/Jói K
Tengivagn slitnaði frá vörubíl og valt í Hvalfirði, innst við Hvammsvík rétt fyrir klukkan 18 í kvöld.

Samkvæmt varðstjóra Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins urðu ekki alvarleg slys á fólki en einhver olía lekur úr vagninum. Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins er á vettvangi og þá hefur Heilbrigðiseftirlit Mosfellsbæjar verið kallað út auk þess sem að Umhverfisstofnun hefur verið tilkynnt um málið.

Tvær sveitir slökkviliðsins hafa verið sendar á vettvang og vinna nú að olíuhreinsun á svæðinu, frá Kjalarnesi og Mosfellsbæ. Að sögn varðstjóra hjá Slökkviliðinu var rafstöð um borð í tengivagninum sem innihélt um það bil sex þúsund lítra af olíu.

Kranabílar frá ET hafa þá verið sendir á vettvang og hefur hann híft vagninn aftur á réttan kjöl. Búið er að stöðva lekann úr vagninum og koma þannig í veg fyrir frekari umhverfisáhrif af sökum hans. Slökkvilið vinnur nú að olíuhreinsun á svæðinu.

Fréttin hefur verið uppfærð

Kranabíll hífði tenginvagninn upp á veg.Vísir/Jói K



Fleiri fréttir

Sjá meira


×