Lífið

Af háa brettinu í djúpu laugina

Kristjana Björg Guðbrandsdóttir skrifar
Flosi Eiríksson, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins, býr í Kópavogi með þremur af börnum sínum og vill hvergi annars staðar vera.
Flosi Eiríksson, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins, býr í Kópavogi með þremur af börnum sínum og vill hvergi annars staðar vera. Fréttablaðið/Stefán
Flosi Eiríksson, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins, hættir sér úr veðursældinni í vesturbæ Kópavogs í kaffibolla í vindasamri miðborginni. Það má nánast kalla Flosa innfæddan í Kópavogi, hann hefur aldrei flutt lengra en í Hamraborgina og það þótti honum meira að segja fulldjarft.

„Það var nú öll ævintýraþráin, en í Hamraborginni var ég með útsýni til vesturs og það hjálpaði,“ segir hann íbygginn. Bæjarlífið hefur breyst frá því foreldrar Flosa, Eiríkur Jónas Gíslason, brúarsmiður og húsasmíðameistari hjá Vegagerðinni, og Þorgerður Þorleifsdóttir dagmóðir byggðu bernskuheimilið í vesturbæ Kópavogs. „Þegar ég var í menntaskóla þótti það jaðra við að búa úti á landi að búa í Kópavogi og þó að bærinn verði alltaf meira og meira miðsvæðis er þar enn svona þorpsstemning og mér þykir gott að búa þar með börnunum. Hér er allt til alls, sundlaug, fiskbúð, bókasafn og skóli, og Kópavogur er skemmtilegri en mörg nýrri úthverfi höfuðborgarsvæðisins, hér er blandaðri byggð,“ segir Flosi og segist hvergi ætla að flytja. Hann verði áfram í Kópavogi um aldur og ævi.

„Foreldrar mínir voru aðkomufólk, engra manna og ekki í Sjálfstæðisflokknum og fengu því ekki lóð í Reykjavík. Þeim var bent á að fara og tala við Finnboga Rút. Pabbi gerði það og þeir sátu og drukku kaffi saman heima á Marbakka eins og við gerum núna, ósköp notalegt bara og þegar þeir höfðu talað saman í meira en klukkustund þá rúllaði Finnbogi Rútur uppdrætti út á stofuborðið og sagði: Þú færð lóð og þú færð þessa lóð hér! Svo byggðu foreldrar mínir sér hús og bjuggu þar alla ævi.“

Áttu eins leikföng

Flosi er einn sex systkina. Hann og tvíburasystir hans, Elín, eru yngst. „Elstur er Gísli sem starfar sem verkfræðingur hjá Vegagerðinni, þá er það Björg sem starfar sem kennari, Þorleifur sem er líffræðingur og rekur ráðgjafarfyrirtæki, Ívar sem er forritari hjá Reiknistofunni og svo ég og Elín sem starfar sem bókasafns- og upplýsingafræðingur hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu. Ég fæddist fjórum klukkustundum á undan henni svo ég segi að ég sé eldri en hún,“ segir Flosi. Þau Elín eru eðlilega frekar náin.

„Þótt við séum ekkert skyldari en önnur systkini líffræðilega. Við erum alls ekkert lík en við vorum oft mikið saman og stundum klædd í eins föt. Þegar við Elín fæddumst þá var Björg í kennaranámi og mjög upptekin af alls kyns uppeldiskenningum. Við Elín áttum framan af eins leikföng, jafn margar dúkkur og bíla og svona. Ég á enn þá dúkkuna mína sem pabbi keypti á iðnaðarsýningu í Hannover. Þegar hún var lögð aftur þá lokuðust á henni augun, svakalega flott,“ segir Flosi.

 

Sat kyrr um fermingu

Flosi segist halda að hann hafi ekki verið sérlega auðveldur viðureignar sem barn og unglingur. „Það var sagt um mig að ég hefði lært að sitja kyrr um fermingu. Ég fékk mikið hrós fyrir að sitja kyrr í athöfninni. Ég var hávær, fyrirferðarmikill og ég held ég hafi ekki verið sérlega skemmtilegur!“

Hann segist hafa róast aðeins með árunum. Blaðamaður getur að minnsta kosti vitnað um að hann situr tiltölulega kyrr yfir kaffibollanum.

Eftir menntaskólann fór Flosi á samning í húsasmíði hjá föður sínum og fékk sveinsbréfið 1993. „Ég var í brúarvinnu með pabba sjö sumur í röð og vann svo í byggingarvinnu í Kópavogi og Reykjavík. Ég fór svo tíu árum seinna í Háskólann í Reykjavík og útskrifaðist sem viðskiptafræðingur árið 2006.“

Hvers vegna ákvaðstu að læra viðskiptafræði?

„Ástæðan var janúar, febrúar og mars. Það var í einum af þessum mánuðum þar sem ég var efst í Þingunum í Kópavogi að slá upp svalahandriði í myrkri og hríð að ég hugsaði: Nei, djöfullinn, nú þarf ég að prófa að gera eitthvað annað!“

Flosi segir að leiðarar ritstjóra sjáist ekki um að nú þurfi stjórnnendur að hafa sig hæga, sýna festu og taka á sig skerðingu því nú sé staðan þannig.Fréttablaðið/Stefán

Fordómar í garð iðnnáms

Hann varð var við fordóma í garð iðnnáms þá og enn í dag en Flosi er formaður skólanefndar Menntaskólans í Kópavogi þar sem fjölmargar iðngreinar eru kenndar.

„Þegar ég kláraði stúdentsprófið spurðu einhverjir kennarar hvað ég ætlað að gera og þegar ég sagði þeim að ég ætlaði í iðnnám sögðu þeir, já, það er gott að hafa það með stúdentsprófinu. En ég svaraði, nei, það er á hinn veginn, það er gott að hafa stúdentsprófið með iðninni. Og sem formaður skólanefndar í MK sé ég þetta enn þann dag í dag. Á vorin eru haldnir kynningarfundir og þá koma krakkar, mjög oft í fylgd mæðra sinna og þegar þeir sýna einhverri iðngrein áhuga, til dæmis kjötiðn eða kokkinum eða þjóninum, þá heyrist: Þetta er fínt en viltu ekki taka stúdentspróf fyrst?

En hvað gerist svo, þeir flosna upp úr námi vegna áhugaleysis. Fara á vinnumarkaðinn í nokkur ár og trúa því um sjálfa sig að þeir séu vitlausir. Svo koma þeir seinna og blómstra og verða flottir fagmenn í þessum greinum. Ég held að við leggjum ofuráherslu á formlega menntun og okkur finnst það merkilegra í einhverjum skilningi að verða stúdent og fá BS-gráðu en að verða iðnaðarmaður eða finna sér sérhæfingu eftir áhugamáli,“ segir Flosi og segir mörgum félagsmönnum sínum í Starfsgreinasambandinu svíða þessi ofuráhersla á stúdentspróf.

„Fyrir utan setuna í skólanefndinni er „eina“ félagsstarfið sem ég sinni að vera ritari í stjórn knattspyrnudeildar Breiðabliks, ég dróst inn í það af því að krakkarnir mínir æfðu þar. Það finnst nú sumum sem mig þekkja fyndið að ég sé í stjórn íþróttafélags, en það hefur verið ferlega skemmtilegt starf og gefandi verkefni að taka þátt í að reka uppeldis- og íþróttastarf fyrir fast að 1.500 stráka og stelpur, fyrir utan okkar frábæru meistaraflokka. Núna um síðustu helgi var einmitt Símamótið sem er langstærsta knattspyrnumót á Íslandi fyrir stelpur og stolt okkar Blika. En í þessu starfi skiptir líka öllu að tryggja jafnan aðgang og möguleika fyrir alla óháð efnahag, stelpur og stráka.“

Slæm mannauðsstjórnun

„Í Starfsgreinasambandinu eru 67 þúsund félagsmenn sem flestir eru ófaglærðir en engu að síður búa margir þeirra yfir mikilli reynslu og menntun. Hún er bara ekki formleg og henni fylgir ekki prófskírteini. Þetta fólk hefur lagt mikið á sig, farið á ótal námskeið og stundað nám í sínu fagi en svo flettir það atvinnuauglýsingunum og þar stendur enn allt of oft: Stúdentspróf skilyrði. Þá er atvinnurekandinn búinn að segja við fullt af efnilegu og reynslumiklu fólki að það komi ekki til greina,“ segir Flosi og segir alla tapa á fyrirkomulaginu. Bæði fyrirtæki sem missi af reynslumiklu fólki með breiða þekkingu og starfsfólk sem finnst það lítils metið á vinnumarkaði. „Í raun og veru er þetta bara slæm mannauðsstjórnun. Ég er alls ekki að gera lítið úr menntun en við erum ekki nógu dugleg að meta fjölbreytt nám til framþróunar og hærri launa,“ segir Flosi.

 

Stökk af háa brettinu

Flosi hóf störf sem framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins þann 6. desember. Strax degi seinna fór hann á fyrsta fundinn með Samtökum atvinnulífsins. „Ég stökk af háa brettinu beint í djúpu laugina.“

Hann segir yfirlæti og hroka sem einkenndi umræðu um kjaramál hafa komið sér á óvart. „Þessi gífur­yrði og tungutak sem fjölmiðlar, álitsgjafar og hluti atvinnurekenda leyfa sér gagnvart einstökum forystumönnum í verkalýðshreyfingunni eru með ólíkindum. Ég er að vinna með 19 formönnum félaga Starfsgreinasambandsins á landinu og allt í einu er talað um þá sem glæpa- og hryðjuverkamenn sem ætli sér að leggja landið í rúst. Mér finnst þessi talsmáti sérstaklega áberandi gagnvart kraftmiklum konum í okkar hreyfingu og nefni þar til dæmis forvera minn í stólnum hjá SGS, Drífu Snædal, forseta ASÍ, og það sem yfir hana gengur af sóðaskap. Þá kemur alltaf upp í hverjum einustu kjaraviðræðum að ástandið í íslensku efnahagslífi hafi sjaldan verið verra og horfurnar óvissar. Og alltaf er herjað á lægst launaða hópinn að sýna festu því annars fari verðbólgan af stað. En maður les ekki leiðara ritstjóra um að nú þurfi stjórnendur að hafa sig hæga, sýna festu og taka á sig skerðingu því nú sé staðan þannig,“ segir Flosi og segist telja að umræðan endurtaki sig vegna þess að verkalýðsforystan hafi áður að einhverju leyti gengist við þessum rökum. „Við höfðum að sumu leyti orðið undir í umræðunni og stundum gengist við þessum rökum, en það gerum við ekki lengur og mér fannst aðdáunarverð samstaða allra félaga í þessum kjaraviðræðum. Við létum ekki etja okkur hverju á móti öðru og það er mjög merkilegt að öll félög Starfsgreinasambandsins hafi skrifað undir einn kjarasamning, það held ég að hafi ekki verið gert áður.

Mér hefur verið tekið afar vel af formönnunum í SGS og öðrum í verkalýðshreyfingunni, studdur af stað og leiðbeint en um leið sýnt mikið traust og notið trúnaðar, svo er bara að standa sig og sinna þeim störfum vel sem mér eru falin.“

Mansal og launaþjófnaður

Starfsemi verkalýðsfélaga verður sífellt flóknari. Sífellt stærri hópur starfsfólks er af erlendu bergi brotinn og krefjandi mál enda á borði félaganna.

„Innan félaganna er hópur sem er að vissu leyti flókið að virkja og erfiðara að ná til. Á kynningarfundi félagsins í Skagafirði á dögunum um nýjan kjarasamning vorum við með búlgarskan túlk, því þar starfa margir frá Búlgaríu. Verkalýðsfélögin eru í raun að gera miklu meira í þessum efnum en þeim ber skylda til en það er nauðsynlegt. Þessi hópur er útsettur fyrir því að það sé svindlað á þeim ásamt námsmönnum og ungu fólki. Þetta er fólk sem þekkir ekki réttindi sín eða skortir kjark til að sækja þau. Alþýðusambandið hefur gengið hart fram í að það verði að vera hörð viðurlög við þessum brotum. En það hefur gengið mjög illa að ná því fram því hér á landi virðist alltaf verið svo flókið að setja lög um kennitölu­flakk, refsa atvinnurekendum fyrir launaþjófnað og vinnumansal,“ segir Flosi.

„Verkalýðsfélög landsins eru að keyra í gegn alvarleg mál sem eru alls ekki öll í fjölmiðlum og þetta er viðvarandi í ferðaþjónustunni.“

 

Ekki með puttann á púlsinum

Verkalýðsfélögin eru að snerta á mikilvægum málefnum sem skipta félagsmenn okkar máli. Húsnæðismál og vaxtamál skipta þar miklu máli og velferðarmál í stóru samhengi og nú viljum við líka skoða aðgengi að heilbrigðisþjónustu því við sjáum að félagsmenn sem búa vítt og breitt um landið bera þungan kostnað vegna tiltölulegra einfaldra læknisrannsókna, við ætlum að skoða þetta vel í haust á þingi SGS.“

Flosi sat í bæjarstjórn Kópavogs fyrir Samfylkinguna frá 1998 til 2010 og er enn skráður í Samfylkinguna en segist hafa orðið fyrir miklum vonbrigðum með áherslur vinstri flokkanna eftir að hann blandaði sér í verkalýðsbaráttuna.

„Það er óhætt að segja að ég hafi orðið fyrir miklum vonbrigðum, bæði með Vinstri græn og Samfylkinguna sem bæði eiga sögulegar rætur í samtökum verkafólks, hversu þau skynja lítið þarfir og áhyggjur félaga í verkalýðsfélögum landsins. Eru bara alls ekki með puttann á púlsinum, þau tala ekki þetta tungumál og mér finnst komin einhvers konar gjá á milli verkalýðsfélaganna og stjórnmálaflokkanna. Ég skynja þetta mögulega sterkar því ég var í stjórnmálastarfi á þessum væng,“ segir Flosi. „En þetta má svo sem segja um um alla stjórnmálaflokka á Alþingi.“

Ég get náttúrlega ekki komið í staðinn fyrir móður þeirra en ég þurfti að gera meira, segir Flosi. Fréttablaðið/Stefán

Óvænt og bráð veikindi

Flosi missti eiginkonu sína, Nínu Björk Sigurðardóttur, úr bráðahvítblæði fyrir nærri sex árum. Saman áttu þau þrjú börn en fyrir átti Flosi son.

„Þetta voru mjög óvænt og skyndileg veikindi. Hún var látin aðeins ári eftir að hún veiktist, í framhaldi af mergskiptaaðgerð í Svíþjóð. Þá voru börnin okkar þrjú 6, 8 og 10 ára gömul. Ég hef ekki mikið rætt um veikindin og fráfall Nínu opinberlega vegna barnanna. Mér hefur fundist ég þurfa að hlífa þeim en nú eru þau orðin eldri og þá gæti það orðið til gagns fyrir aðra,“ segir Flosi og bætir við að frá því að hún hafi verið greind með hvítblæði hafi þau verið samstiga í gegnum það verkefni að takast á við sjúkdóminn og ná bata.

„Hún var sterk og nálgaðist þetta þannig að hún ætlaði að vinna þetta stríð. Þetta var verkefni sem við ætluðum að leysa saman, við ákváðum strax að velta okkur ekki mikið upp úr líkum á bata. Læknir sem við hittum minnti okkur líka á að þetta væri rétta hugarfarið, það breytti engu að vita allt um samsettar líkur, það eina sem skipti máli væri framgangur einnar manneskju. Við vorum heppin að eiga stóra og styðjandi fjölskyldu, tengdaforeldrar mínir búa nálægt og voru okkur afar hjálpleg. Stuðningur þeirra við krakkana og mig hefur síðan verið mjög mikill og ómetanlegur. Og allt okkar fólk, systkini mín og hennar og margir fleiri fór út fyrir allt, þá og síðar, það er verðmætt. En samfélagið, það er ekkert sérstakt. Hvernig við tökum á móti veiku fólki og syrgjandi. Fyrir utan skólann, Kársnesskóla, sem studdi mjög vel við okkur og börnin. Þegar barn missir foreldri þá er það mikið inngrip í skólastarfið, það þarf að útskýra fyrir börnunum að annað foreldranna sé dáið og þá geta kviknað sterk viðbrögð. En skólinn gerði þetta frábærlega og við fengum fallegar kveðjur og kort,“ segir Flosi.

Fjárhagsáhyggjur þung byrði

Flosi nýtti sér aðstoð Ljóssins styrktar­félags og Ljónshjarta sem er stuðningsfélag fyrir fólk sem hefur misst maka og börn þess. Stuðningurinn er mikilvægur enda stendur makinn eftir einn með börn og óviss um hvað tekur við. Hann segir fjárhagsáhyggjur þunga byrði mörgum ekkjum og ekklum í þessum sporum.

„Þegar foreldri fellur frá getur það verið fjárhagslega erfitt fyrir marga en þetta mjakast þó í rétta átt. Það var gerð lagabreyting á síðasta ári sem gerir fólki kleift að sækja um viðbótarmeðlag þegar það þarf að standa undir meiriháttar kostnaði, til dæmis tannréttingum, fermingum og slíku,“ nefnir Flosi.

Hann segir missinn hafa gert bæði sig og börnin næmari fyrir ýmsum hlutum.

„Mér detta í hug öll skiptin sem krakkarnir heyrðu eitthvað í þessa áttina: Bjóðið nú mömmu og pabba að koma á sýninguna, eða segið nú mömmu og pabba frá þessu. Þetta er erfitt en ekki bara fyrir börn sem hafa misst foreldri heldur líka þau sem eiga öðruvísi fjölskyldur og þau eru fjölmörg. Ég hef örugglega sagt eitthvað í þessa áttina en nú þegar ég stend í þessum sporum veit ég betur og get sagt að þetta stingur alltaf svolítið.

Og einstaka sinnum fann ég fyrir því að fólki fannst skrýtið að ég væri með börnunum. Ef ég fór með þau á vissa staði, segjum til dæmis til læknis, þá lá stundum spurningin í loftinu: Hvar er mamma þeirra? En ekki alls staðar og eitt sem mér þykir verulega vænt um er traust foreldra vina barna minna til mín. Vinkonur dóttur minnar fengu áfram að gista og eins með vini sona minna. Mér var treyst og ég segi bara, takk!“

I love you three!

Flosi þurfti að tileinka sér ýmislegt sem hann segir að hafi ekki endilega verið sér eðlislægt.

„Ég get náttúrlega ekki komið í staðinn fyrir móður þeirra en ég þurfti að gera meira. Ég er ekki frábær í heimilisstörfum en þarf að standa mig. Ég þurfti að breytast og læra hluti, ég var til dæmis svolítið lokaður og það var mér ekki eðlislægt að vera oft með yfirlýsingar um ást mína og væntumþykju. En nú þurfti ég bara að gera það. Af hverju gerði ég þetta ekki alltaf, hugsaði ég mjög fljótlega, það er svo ofsalega gott að breiða yfir börnin mín og segja þeim að ég elski þau. Ég þurfti að æfa mig í þessu og finna minn takt,“ segir Flosi og segist hafa fundið sína aðferð og hún sé jafngóð og hver önnur.

„Já, ég er kannski þannig pabbi að ég segi börnunum mínum sögur af finnskum ráðherrum til að tjá tilfinningar mínar,“ segir hann brosandi og rifjar sögu sem reynist góður ísbrjótur.

„Einhvern tímann vorum við að ferðast í bíl og ég að segja börnunum brandara af finnskum ráðherra sem skildi lítið sem ekkert í ensku. Hann var í kvöldverði á þingi Sameinuðu þjóðanna og svona til að halda uppi samræðum við konuna við hliðina á sér segir hann: I Iove you, hún bregst snarlega við og segir bara til baka, I love you too. Og þá svarar hann, I love you three. Við segjum þetta stundum hvert við annað.

Börnin mín eru næmari, þau skynja betur líðan annars fólks. Það verður til þroski og þau búa yfir samhygð,“ segir Flosi. „Það er svo margt sem gerist en eitt er mikilvægt, það er að sorg er persónubundin. Það er afar misjafnt hvernig menn skynja og takast á við bæði áföll og sorg. Við berum öll með okkur áföll og sorgir. En eitt er víst og það er að tíminn læknar ekki öll sár. Þetta er einn af verstu íslensku málsháttunum því hann geymir engan sannleik og er algjör della. Maður heldur áfram af því að maður verður að gera það. Ef við hefðum ekki átt þessi börn þá hefði ég ekki komist fram úr. Fólk í þessum sporum og börn þess þurfa mikinn stuðning og nærgætni og það er afar mikilvægt að hafa aðgang að sérfræðingum. Við nýttum okkur þjónustu Ljóssins og ýmissa sérfræðinga eins og sálfræðinga og það skipti miklu máli,“ segir Flosi.

„Það er til dæmis lokuð Facebook síða, Ljónshjarta, þar sem er hægt að tala við aðra í sömu sporum og þar er hægt að tala mjög opinskátt við þá sem eru á svipuðum stað. Það er nefnilega ekki hægt að setja sig í þessi spor. Mér fannst þetta mjög gagnlegt, að eftir að börnin voru sofnuð að geta talað við aðra og finnast maður ekki einn í heiminum.“

Flosi hefur einnig sína aðferð við að takast á við missinn og minningarnar, hann minnist þess góða.

„Við Nína áttum fimmtán frábær ár, það er það sem ég ætla að muna. En ekki erfiðleikana og veikindin. Og við eignuðust þrjú frábær börn sem minna mig á þennan frábæra tíma og ég sé mjög mikið af henni í börnunum mínum. Svona held ég áfram,“ segir Flosi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×