Innlent

Segir bagalegt að uppbygging varnarmannvirkja á Keflavíkurflugvelli fari fram á vakt VG í ríkisstjórn

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri grænna.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri grænna. Fréttablaðið/Andri Marinó
Þingmaður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs og nefndarmaður Utanríkismálanefndar Alþingis segir bagalegt að uppbygging varnarmannvirkja á Keflavíkurflugvelli fari fram á vakt VG í ríkisstjórn. Hún segir málið þarfnast frekari umræðu í þinginu. 

Í grein Ögmundar Jónassonar sem hann birti á vefsíðu sinni í gær segir hann það ömurlegra og alvarlegra en orð fá lýst ef Bandaríkjaher snýr aftur til Keflavíkur í boði hans gamla flokks, VG.

Rósa Björk Brynjólfsdóttir þingmaður VG og nefndarmaður í Utanríkismálanefnd Alþingis tekur undir orð Ögmundar.

„Ég tek undir orð Ögmundar, það er bagalegt að þetta sé að fara fram á vakt VG í ríkisstjórn,“ sagði Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður VG og nefndarmaður í utanríkismálanefnd Alþingis.

Greinin er birt í kjölfar þess að Alþingi samþykkti í síðasta mánuði að 300 milljónir af fyrirhuguðum framlögum til þróunaraðstoðar yrðu færðar í viðhald mannvirkja Atlantshafsbandalagsins á Keflavíkurflugvelli.

Rósa Björk segir að frekari umræðu um uppbygginguna skorti á þingi.

„Ég studdi heldur ekki tilfærslu á 300 milljónum á þróunarfjármunum yfir í uppbyggingu og viðhald á varnarmannvirkjum sem mér fannst ótækt og studdi því ekki í atkvæðagreiðslu á þingi. Ég hef ítrekað óskað eftir því að við tökum þinglega umræðu inni á þingi um uppbyggingu af þessum toga,“ sagði Rósa.

Þá áformar Bandaríkjaher sjö milljarða króna mannvirkjauppbyggingu á Keflavíkurflugvelli á næsta ári að því er fram kemur í fjárhagsáætlun bandaríska flughersins fyrir næsta ár.

Í grein Ögmundar biðlar hann til VG að grípa í taumana.

„Ég tek bara undir áskorun Ögmundar,“ sagði Rósa Björk.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.