Innlent

Vinnu að nýju Alzheimerlyfi hætt vegna mikilla aukaverkana

Andri Eysteinsson skrifar
Fjölmargir íslendingar greinast með Alzheimer á hverju ári og sjúkdómurinn veldur mikilli skerðingu á lífsgæðum fólks.
Fjölmargir íslendingar greinast með Alzheimer á hverju ári og sjúkdómurinn veldur mikilli skerðingu á lífsgæðum fólks. vísir/getty
Ákveðið hefur verið að hætta við þróun á nýju lyfi gegn Alzheimer en aukaverkanir sem fylgja lyfinu voru metnar of miklar af sérstakri vísindanefnd. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íslenskri erfðagreiningu.

Miklar vonir voru bundnar við tilraunina þar sem Alzheimer sjúkdómurinn er ein af stærstu áskorunum sem heilbrigðisvísindin standa frammi fyrir en allar tilraunir til að þróa lyf gegn sjúkdómnum hafa verið árangurslausar.

130 Íslendingar höfðu tekið lyfin í tilrauninni en að verkefninu störfuðu átta manns, tveir læknar, tveir sálfræðingar og fjórir hjúkrunarfræðingar. Jón Snædal, öldrunarlæknir á Landsspítalanum fór fyrir rannsókninni í samstarfi við þjónustumiðstöð rannsóknarverkefna.

David Reese, yfirmaður þróunar og rannsókna hjá Amgen sem vann að þróun lyfsins ásamt Novartis, segir niðurstöðuna vera mikil vonbrigði, bæði fyrir vísindin og þær milljónir sem Alzheimer hefur áhrif á. Hann segist þó enn trúa því að efnahvatinn sem lyfið átti að hemja sé mikilvægur í ferlinu. Reese segir fyrirtæki sitt enn fremur reiðubúið til þess að deila niðurstöðum sínum með öðrum og þannig leggja lóð sín á vogarskálarnar.

Kári Stefánsson, forstjóri íslenskrar erfðagreiningar segir lyfið hafa haft áhrif á efnahvatann en það hafi ekki nægt til þess að hægja á þróun sjúkdómsins.

Haft verður samband við alla þátttakendur verkefnisins og framhaldið rætt.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×