Innlent

Gunnar Jóhann úr­skurðaður í gæslu­varð­hald til 11. septem­ber

Sylvía Hall skrifar
Frá vettvangi í Mehamn laugardaginn 27. apríl.
Frá vettvangi í Mehamn laugardaginn 27. apríl. TV2/Christoffer Robin Jensen

Gunnar Jóhann Gunnarsson hefur verið úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald til 11. september en hann er grunaður um að hafa skotið Gísla Þór Þórarinsson, hálfbróður sinn, til bana þann 27. apríl síðastliðinn. Þetta staðfestir Anja M. Indbjør hjá lögreglunni í Finnmörk við fréttastofu RÚV.

Morðið átti sér stað í norska bænum Mehamn í Norður-Noregi. Krufning hefur leitt það í ljós að dánarorsök Gísla Þórs var skot í lærið. Við skotið missti hann mikið blóð með þeim afleiðingum að hann lést.

Sjá einnig: Gísli lést eftir að hann var skotinn í lærið

Gísli Þór var enn á lífi þegar lögregla mætti á vettvang en í upphafi neyddust viðbragðsaðilar hins vegar til að bíða fyrir utan heimili hans í fjörutíu mínútur þar sem lögregla var ekki mætt á vettvang. Biðin var vegna öryggisreglna sjúkraflutningamanna sem kveða á um að þeir verði að bíða eftir að lögregla tryggi vettvang í málum sem skotvopn koma við sögu en í þessu tilfelli þurfti að bíða eftir lögregluþjónum sem voru í um hálftíma fjarlægð frá Mehamn.

Rannsókn málsins er ekki lokið en haft er eftir lögreglu að stefnt sé að ljúka rannsókn áður en gæsluvarðhald rennur út. Um fimmtíu manns hafa verið yfirheyrð við rannsókn málsins en rannsókn lögreglu bendir til þess að Gunnar Jóhann hafi komist yfir vopnið sama dag og Gísli Þór var skotinn til bana.

Gunnar Jóhann skrifaði færslu á Facebook-síðu sína augnablikum áður en hann var handtekinn og játaði þar að hafa orðið bróður sínum að bana. Hann neitaði hins vegar sök þegar hann var yfirheyrður af lögreglu í fyrsta skipti.


Tengdar fréttir

Gunnar lýsti átökum við bróður sinn í yfirheyrslu hjá lögreglu

Gunnar Jóhann Gunnarsson, sem grunaður er um að hafa skotið Gísla Þór Þórarinsson, hálfbróður sinn, til bana síðastliðinn laugardag í Mehamn í Norður-Noregi, lýsti því í yfirheyrslu hjá lögreglu í gær að það hefði komið til átaka á milli þeirra bræðra eftir að Gunnar fór heim til Gísla.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.