Innlent

Öll sveitarfélög á Vesturlandi kæra ákvörðun Skipulagsstofnunar

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá Kjalarnesi.
Frá Kjalarnesi. Vísir/egill
Öll sveitarfélög á Vesturlandi hafa kært ákvörðun Skipulagsstofnunar um að fyrirhuguð breikkun Vesturlandsvegar um Kjalarnes skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Fylgja sveitarfélögin þar með í fótspor Akraneskaupstaðar, sem kærði ákvörðunina fyrr í þessum mánuði.Í yfirlýsingu sveitarfélaganna sem birt var í gær segir að sveitarfélögin standi með Akraneskaupstað og kæri ákvörðunina á sömu forsendum. Um er að ræða Borgarbyggð, Dalabyggð, Eyja- og Miklaholtshrepp, Grundarfjarðarbæ, Helgafellssveit, Hvalfjarðarsveit, Skorradalshrepp, Snæfellsbæ og Stykkishólmsbæ.Vegagerðin, sem einnig hefur kært ákvörðun Skipulagsstofnunar, áformar að breikka um 9 kílómetra kafla Vesturlandsvegar á milli Varmhóla og vegamóta við Hvalfjarðarveg. Um er að ræða breikkun vegarins í 2+1 veg ásamt hliðarvegum, hringtorgum og göngu-, hjóla- og reiðstígum. Yfirlýst markmið framkvæmdanna er að breikka Vesturlandsveg til að auka umferðaröryggi, greiða fyrir umferð og fækka vegtengingum. Skipulagsstofnun komst þó að þeirri niðurstöðu í júní  að breikkun vegarins um Kjalarnes skuli háð mati á umhverfisáhrifum.Bera sveitarfélögin því fyrir sig í kærunni að ákvörðun Skipulagsstofnunar byggi á röngum forsendum, sé í ósamræmi við fyrri ákvarðanir Skipulagsstofnunar og beri að ógilda.Þá er bent á að ekki sé um nýjan veg að ræða og land sem raskist við framkvæmdina hafi þegar orðið fyrir röskun vegna þess vegar sem nú liggur um svæðið. Einnig var vísað til þess í tilkynningu frá Akraneskaupstað sem send var út fyrr í þessum mánuði að framkvæmdin hefði afar jákvæð samfélagsleg áhrif vegna bætts umferðaröryggis. Henni væri jafnframt ætlað að taka á „lífshættulegum aðstæðum sem vegfarendum er boðið upp á“.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.