Innlent

Horfa þarf til Hvassahraunsmöguleika

Aðalheiður Ámundadóttir skrifar
Stækkun Keflavíkurflugvallar er í farvatninu.
Stækkun Keflavíkurflugvallar er í farvatninu. Fréttablaðið/GVA

Taka þarf mið af mögulegri uppbyggingu nýs flugvallar í Hvassahrauni í mati á umhverfis­áhrifum stækkunar Keflavíkurflugvallar. Þetta kemur fram í ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsáætlun fyrir verkefnið sem birt var á vef stofnunarinnar í gær.

Í tillögu Isavia að matsáætlun eru settir fram tveir meginvalkostir um stækkun flugvallarins í Keflavík. Samtök um betri byggð telja að bera þurfi fyrirhugaðar framkvæmdir saman við aðra valkosti um uppbyggingu á aðstöðu fyrir millilandaflug og innanlandsflug á suðvesturhorninu. Þetta kemur fram í athugasemdum samtakanna við tillögu Isavía að matsáætlun til Skipulagsstofnunar. Í svörum Isavia við þessum athugasemdum kemur fram að „fyrirtækið telji það ekki vera hlutverk umhverfismats á stækkun Keflavíkurflugvallar að meta umhverfisáhrif af uppbyggingu annarra flugvalla“.

Skipulagsstofnun er ekki sammála Isavia að því leyti og bendir á að starfshópur sé starfandi á vegum stjórnvalda sem hafi það hlutverk að skoða uppbyggingu flugvallar í Hvassahrauni. „Það liggur því fyrir að litið er á uppbyggingu flugvallar þar sem mögulegan eða raunhæfan valkost. Af þeim sökum þarf í frummatsskýrslu að gera grein fyrir stöðu mála varðandi mögulega flugvallaruppbyggingu í Hvassahrauni,“ segir í ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsáætlun verkefnisins. Fram kemur að fjalla þurfi um fyrirhugaða uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli og umhverfisáhrif hennar miðað við mögulega sviðsmynd um að byggður verði flugvöllur í Hvassa­hrauni. Einnig þurfi að gera grein fyrir fyrirhugaðri áfangaskiptingu framkvæmdanna miðað við áformaða afkastagetu flugvallarins í hverjum áfanga, sem skoðist þá jafnframt sem valkostir um uppbyggingu flugvallarins.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.