Lífið

Kátur með Íslandsferðina þrátt fyrir myglaðan ost í Bónus

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Rúmlega 700 þúsund manns hafa nú þegar séð Íslandsævintýri Derek Gerard, og um leið myglaða oststykkið.
Rúmlega 700 þúsund manns hafa nú þegar séð Íslandsævintýri Derek Gerard, og um leið myglaða oststykkið. Skjáskot

Kanadíski myndbandabloggarinn Derek Gerard er heilt yfir ánægður með Íslandsferð sína, þrátt fyrir að þykja lítið til harðfisks, verðlagsins og myglaðs osts í Bónus koma. Náttúrufegurð og matseldin á Aktu taktu og KFC vega upp á móti.

Gerard, sem er með rúmlega 1,7 milljónir fylgjenda á Youtbe, var á Íslandi í lok júní en birti myndband af ævintýrum sínum hér á landi á rás sinni um helgina. Meðal þess sem hann tók upp á var að leyfa ókunnugu fólki og slembitölugjafa að ráða mataræði sínu í einn sólarhring, sem er einmitt rauði þráður myndbandsins.

Í því sést hann meðal annars líta við í Bónus á Akranesi, þar sem hann velur sér vörur af handahófi. Meðal þess sem ratar í körfu Gerard er flaska af gosdrykknum Mix, pasta og Opal-töflur. Hann hafði hugsað sér að grípa með Gotta oststykki en snerist hugur þegar hann sá að osturinn var myglaður.

Gerard lét það þó ekki á sig fá heldur hélt á Aktu taktu þar sem hann pantaði það sama og manneskjan á undan sér í bílaröðinni hafði keypt. Sá kanadíski var hæstánægður með matinn, þrátt fyrir að þykja verðið í hærra lagi. Að sama skapi var hann kátur með réttina sem hann keypti á KFC, þrátt fyrir að hann hafi keypt helst til mikið.

Sömu sögu var ekki að segja af matnum sem Gerard fékk í Litlu Kaffistofunni, að sögn myndbandabloggarans var kleinan sem hann fékk í Svínahrauni hörð og bragðlaus.

Myndband af Íslandsferð Derek Gerard má sjá hér að neðan en það hefur fengið rúmlega 700 þúsund áhorf á rúmum sólarhring.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.