Fótbolti

Þrír Íslendingar á skotskónum í Noregi

Anton Ingi Leifsson skrifar
vísir/getty
Íslensku knattspyrnumennirnir voru á skotskónum í norska fótboltanum í dag en þrír náðu að skora fyrir sín lið í dag og einn lagði upp mark.

Samúel Kári Friðjónsson skoraði mark Viking er liðið gerði 1-1 jafntefli við Mjøndalen. Samúel kom Viking yfir í leiknum en Viking er í sjötta sætinu. Mjøndalen er í því þrettánda.

Matthías Vilhjálmsson lagði upp eitt mark er Vålerenga vann 4-1 sigur á Haugesund. Matthías spilaði allan leikinn fyrir Vålerenga en þeir eru eftir sigurinn í fjórða sæti deildarinnar.

Arnór Smárason spilaði í klukkustund er Lillestrøm rúllaði yfir Tromsø, 4-0, í sömu deild. Lillestrøm er í tíunda sæti deildarinnar með fimmtán stig.

Í norsku B-deildinni skoraði Hólmbert Aron Friðjónsson fyrsta mark Álasundar er liðið vann 3-1 sigur á Sandnes Ulf. Markið skoraði Hólmbert á tíundu mínútu en tveimur mínútum síðar fór hann meiddur útaf.

Aron Elís Þrándarson og Daníel Leó Grétarsson spiluðu allan leikinn fyrir Álasund sem er á toppi B-deildarinnar með 32 stig.

Viðar Ari Jónsson og félagar í Sandefjord eru í öðru sæti deildarinnar, tveimur stigum á eftir Álasund, eftir 2-0 sigur á Jerv. Viðar spilaði allan leikinn en Emil Pálsson er á meiðslalistanum.

Aron Sigurðarson skoraði tvö mörk og lagði upp eitt er Start vann 3-1 sigur á Tromsdalen. Aron, sem hefur verið funheitur á leiktíðinni, skoraði tvö mörk og lagði upp eitt.

Hann spilaði allan leikinn fyrir Start en Kristján Flóki Finnbogason var tekinn af velli á 56. mínútu. Start er í sjötta sæti deildarinnar með 22 stig en deildin er nú á leið í sumarfrí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×