Innlent

Kópavogslækur reglulega hvítur að lit: Íbúar telja að málning rati í lækinn

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Kópavogslækur sést reglulega hvítur að lit en grunur leikur á að málning leki út í lækinn. Vinsælt er meðal barna að veiða þar síli en í læknum er mikið dýralíf. Því hafa íbúar áhyggjur af mengunarafleiðingum og hefur ástandið verið tilkynnt heilbrigðiseftirlitinu.

Reglulega sést Kópavogslækur hvítur að lit en slíkt vekur óhug meðal íbúa Smárahverfis. Upp á síðkastið hefur skiptunum fjölgað og hafa íbúar undrað sig á lit læksins í Facebook hópi hverfisins, en talið er að um málningu sé að ræða.

„Við sjáum reglulega litamengun þar sem greinilega útþynnt málning kemur frá fyrirtækjum í kring. Þetta hefur slæm áhrif á lífríki hér í kring og jafnvel þó það séu engin eiturefni í þessu þá hefru þetta slæm áhrif á lækinn,“ sagði Sævar Örn Einarsson, íbúi í Kópavogi.

Íbúar telja að um málningu sé að ræðaAÐSEND MYND
Lækurinn rennur í gegnum Kópavogsdal en þar eru börn oft að leik að sögn Sævars. Vinsælt er að veiða síli í læknum og er dýralíf mikið þar sem andarungar synda reglulega um. Sævar hefur áhyggjur af dýralífinu á læknum sem og heilsu barna sem leika sér við lækinn.

„Já það er mikið af börnum hér á leik allan daginn. Allt morandi í andarungum. Ég hef áhyggjur af því að þetta hafi slæm áhrif á dýr og born,“ sagði Sævar.

Íbúi í hverfinu hafði samband við Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis og er málið til skoðunar. Eftirlitið hvetur fólk til að láta vita næst þegar lækurinn verður hvítur að lit svo hægt sé að taka sýni af vatninu.

Lækurinn sem um ræðir er í KópavogsdalAÐSEND MYND



Fleiri fréttir

Sjá meira


×