Innlent

BHM endurgreiðir ekki ónotuð gjafabréf

Ari Brynjólfsson skrifar
Orlofssjóður BHM, líkt og sjóðir fjölda annarra stéttarfélaga, seldi gjafabréf í flug með WOW air allt þar til flugfélagið fór í þrot. Alls keyptu félagsmenn í BHM gjafabréf fyrir rúmlega 38 milljónir árið áður.
Orlofssjóður BHM, líkt og sjóðir fjölda annarra stéttarfélaga, seldi gjafabréf í flug með WOW air allt þar til flugfélagið fór í þrot. Alls keyptu félagsmenn í BHM gjafabréf fyrir rúmlega 38 milljónir árið áður. Fréttablaðið/Ernir
Orlofssjóður BHM hyggst ekki endurgreiða ónotuð gjafabréf frá WOW air. Er þeim sjóðfélögum sem eiga ónotað gjafabréf bent á að gera almenna kröfu í þrotabú flugfélagsins.

Líkt og fjölmörg stéttarfélög bauð BHM félagsmönnum sínum að kaupa gjafabréf hjá flugfélögum. Hjá BHM var hægt að kaupa gjafabréf hjá WOW air frá 2016 þangað til í mars síðastliðnum þegar flugfélagið fór í þrot. Var þá hægt að kaupa 30 þúsund króna gjafabréf fyrir rúmar 20 þúsund krónur.

VR, SFR og Sameyki hafa öll heitið því að endurgreiða ónotuð gjafabréf sem sjóðfélagar hafa keypt í gegnum þau. Öll þessi stéttarfélög miða við ár aftur í tímann, eða við gildistímann fram að gjaldþroti flugfélagsins. Athygli vekur að þegar VR kynnti gjafabréfið á sínum tíma var sjóðfélögum bent á að lesa skilmálana vel.

Lilja Grétarsdóttir, formaður orlofssjóðs BHM, segir að stjórnin hafi farið gaumgæfilega yfir málið. Leitað hafi verið ráðgjafar hjá Neytendasamtökunum, lögmönnum og skiptastjóra þrotabús WOW air. Niðurstaðan var að ekki séu forsendur fyrir því að sjóðurinn endurgreiði gjafabréfin.

„Það var farið yfir það hjá sjóðnum að á árinu fyrir gjaldþrot WOW var veltan í gjafabréfum hjá sjóðnum rúmlega 38 milljónir. Það er ekki líklegt að ekkert af þeim hafi verið notað,“ segir Lilja. Ef miðað er við að gjafabréfið kosti 20 þúsund krónur má gera ráð fyrir að sjóðfélagar hafi keypt tæplega 1.900 gjafabréf hjá WOW air í gengum BHM á árinu fyrir fall flugfélagsins.

Stjórnin veit ekki hversu mörg gjafabréf hafa verið nýtt. „Það getum við aldrei vitað. WOW air skuldaði fyrirtækinu sem sá um bókunarkerfið þeirra umtalsverðar fjárhæðir, þannig að því var lokað. Það hefði orðið að bera traust til þess að þeir sem kæmu fram gerðu það með heiðarlegum hætti. Það hefði verið mikil óvissa með þessi bréf.“

Samkvæmt ársreikningi BHM var eigið fé orlofssjóðsins 1,1 milljarður, þar af er stór hluti bundinn í fasteignum. Rekstrarhagnaður síðasta árs nam 97,7 milljónum króna. Á sjóðurinn 91,2 milljónir króna í haldbæru fé.

Þó svo að stjórnin harmi ákvörðun um slíkt myndi, að mati stjórnar, endurgreiðsla skapa varhugavert fordæmi. Lilja segir það mismunandi eftir sjóðum hversu mikið sé undir, orlofssjóður BHM hafi verið með mikil viðskipti með gjafabréfin. Það hafi verið samdóma álit allra sem stjórnin leitaði til að sjóðnum bæri ekki skylda til að taka þetta á sig.

„Þegar þú kaupir þessi bréf þá blasa við skilmálar um að í engu tilviki séu þau endurgreidd,“ segir Lilja. Það má segja að það hefði verið afbrigðilegra að ákveða, af svona sjóði sem er að sýsla um fé stórs hóps, að setja svona mikla peninga til handa litlum hópi. Það færi í raun gegn þeim reglum sem um þetta gilda. Eftir að hafa velt þessu máli fyrir okkur þá komumst við að þessari niðurstöðu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×