Fótbolti

Hlín og Dagný skoruðu í íslenskum sigri í Espoo

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hlín kom Íslandi á bragðið gegn Finnum í dag.
Hlín kom Íslandi á bragðið gegn Finnum í dag. vísir/getty

Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta vann 0-2 sigur á því finnska í vináttulandsleik í Espoo í dag. Þetta var annar leikur liðanna á fimm dögum. Á fimmtudaginn gerðu þau markalaust jafntefli í Turku. Hlín Eiríksdóttir og Dagný Brynjarsdóttir skoruðu mörk Íslands í dag.

Ísland fór rólega af stað í Espoo en eftir um stundarfjórðung færðist meira líf í íslensku sóknina.

Á 21. mínútu kom Hlín Íslendingum með frábæru skoti upp í markhornið. Þetta var annað landsliðsmark Hlínar.

Íslenska liðið hélt áfram að þjarma að því finnska og á 32. mínútu jók Dagný forystuna í 0-2. Glódís Perla Viggósdóttir átti þá laglega sendingu inn fyrir finnsku vörnina, Dagný tók vel við boltanum og skoraði sitt 23. landsliðsmark.

Finnar voru nokkrum sinnum nálægt því að skora í leiknum, þá aðallega Linda Sällström sem fór illa með færin sín í dag. Þegar tíu mínútur voru til leiksloka átti Heidi Kollanen svo skalla í stöng íslenska marksins.

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir kom inn á í sínum fyrsta landsleik eftir rúman klukkutíma. Hún fékk gott færi til að skora þriðja mark Íslands en skaut beint á Tinju-Riikka Korpela, markvörð Finnlands.

Fleiri urðu mörkin í leiknum ekki og 0-2 sigur Íslands staðreynd.

Þetta var síðasti leikur Íslands áður en undankeppni EM 2021 hefst í haust. Ísland mætir Ungverjalandi og Slóvakíu á heimavelli 29. ágúst og 2. september. Auk þessara liða eru Svíþjóð og Lettland í riðlinum.

Byrjunarlið Íslands:

Markvörður: Guðbjörg Gunnarsdóttir

Hægri bakvörður: Ásta Eir Árnadóttir

Miðverðir: Ingibjörg Sigurðardóttir (67. Guðný Árnadóttir) og Glódís Perla Viggósdóttir

Vinstri bakvörður: Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir

Miðjumenn: Dagný Brynjarsdóttir (46. Alexandra Jóhannsdóttir), Sara Björk Gunnarsdóttir, Elín Metta Jensen (67. Sandra María Jessen)

Hægri kantmaður: Hlín Eiríksdóttir (61. Karólína Lea Vilhjálmsdóttir)

Vinstri kantmaður: Agla María Albertsdóttir (46. Fanndís Friðriksdóttir)

Framherji: Berglind Björg Þorvaldsdóttir (39. Margrét Lára Viðarsdóttir)


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.