Innlent

Þristarnir fljúga aftur heim frá Normandí

Kristján Már Unnarsson skrifar
Þristurinn "Liberty" á Reykjavíkurflugvelli að kvöldi 20. maí. Hann er núna fyrstur til að snúa til baka aftur til Bandaríkjanna.
Þristurinn "Liberty" á Reykjavíkurflugvelli að kvöldi 20. maí. Hann er núna fyrstur til að snúa til baka aftur til Bandaríkjanna. Vísir/KMU.
Fyrsti þristurinn, af þeim fimmtán, sem flugu frá Ameríku um Reykjavík í síðasta mánuði á leið til Normandí, er nú aftur kominn til Íslands á heimleið til Bandaríkjanna. Hann lenti á Reykjavíkurflugvelli um klukkan 13.10 eftir flug frá Prestvík í Skotlandi og mætti þar annarri stríðsvél, Catalina-flugbáti, sem óvænt kom til borgarinnar í gær. 

Áhöfn Katalínu áformar flugtak núna um miðjan dag en áhöfn þristsins hyggst halda áfram för í fyrramálið. Næsti áfangi beggja vélanna er Narsarsuaq á Grænlandi. 

Þristurinn kallast „Liberty“ og er merktur Legend Airways með skráningarnúmerið N25641. Flugvélin var smíðuð árið 1943 sem C-47, hernaðarútgáfa DC-3, og þjónaði Bandaríkjaher. Hún var upphaflega notuð í Norður-Afríku og staðsett í Alsír en tók síðar þátt í innrásinni í Normandí. Á D-deginum 6. júní 1944 flutti hún fallhlífahermenn yfir Frakkland og dró svifflugur fullar af hermönnum yfir víglínuna. 

Búist er við næsta þristi á morgun, 18. júní. Ekki er vitað um dagsetningar annarra en búist við að þeir tínist í gegn, einn af öðrum, fram eftir júnímánuði og fram í júlí.

Hér má sjá frétt Stöðvar 2 frá 6. júní um minningarathafnir sem þristarnir tóku þátt í vegna D-dagsins í Normandí:


Tengdar fréttir

Þristarnir streyma inn til Reykjavíkur

Alls fjórtán flugvélar frá stríðsárunum, svokallaðir þristar, millilenda á Íslandi næstu tvo sólarhringa á leið sinni frá Bandaríkjunum til Evrópu til að minnast innrásarinnar í Normandí.

Elsta flugvél sögunnar til að fljúga til Íslands

Þristaveislan mikla er enn í gangi á Reykjavíkurflugvelli en þar lenti nú síðdegis DC 3-öldungur á níræðisaldri sem komst um leið í sögubækur sem elsta flugvél sem flogið hefur til Íslands.

Önnur Catalina lenti óvænt í Reykjavík

Catalina-flugbátur úr síðari heimsstyrjöld birtist óvænt í Reykjavík síðdegis. Tók hann tignarlegan hring yfir borginni áður en hann lenti á Reykjavíkurflugvelli um hálfsexleytið.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.