Innlent

Vill málskot í stað málþófs

Aðalheiður Ámundadóttir skrifar
Katrín Jakobsdóttir  vill breytingar á þingsköpum.
Katrín Jakobsdóttir vill breytingar á þingsköpum. Fréttablaðið/Anton
„Það er hægt að fara aðrar leiðir til að tryggja áhrif minnihlutans á Alþingi en að flokkum sé heimilað að taka þingið í gíslingu. Sjálf hef ég talað fyrir því að ákveðinn fjöldi þingmanna geti vísað málum til þjóðarinnar. Það eru fleiri leiðir færar og ég vil að þær verði skoðaðar,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.

Katrín mun óska eftir því við forseta Alþingis að sett verði af stað vinna við endurskoðun þingskapa.

Samkomulag náðist um þinglok í gær með ákvörðun um að ljúka þinglegri meðferð þriðja orkupakkans á nokkrum dögum í ágúst.

„Sá ósiður að halda úti gegndarlausu málþófi hefur verið sérkenni íslensks stjórnmálalífs um langa hríð og okkur hefur ekki tekist að venja okkur af þessu óheilbrigða fyrirkomulagi,“ segir Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst. Þingsköpum hafi nýlega verið breytt til þess að stemma stigu við málþófi.

„Það tókst ekki betur upp en svo að nú er eiginlega auðveldara en áður að hefja og halda úti málþófi,“ segir Eiríkur. Svokölluðu kjarnorkuákvæði, sem heimilar þingforseta að stöðva umræður, hafi aldrei verið beitt.

„Af óskiljanlegum ástæðum hafa menn ekki viljað beita þessu ákvæði. Mögulega af því þeir vilja sjálfir geta gripið til málþófs lendi þeir í minnihluta að nýju.“




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×