Innlent

Þrír menn ákærðir fyrir að nauðga stúlku

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í næstu viku en þinghald verður lokað.
Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í næstu viku en þinghald verður lokað. vísir/vilhelm
Héraðssaksóknari hefur ákært þrjá menn fyrir nauðgun og verður málið gegn þeim þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur næstkomandi mánudag. Þinghald í málinu verður lokað.

RÚV greindi fyrst frá en Vísir hefur ákæruna í málinu undir höndum. Í ákærunni segir að mennirnir hafi aðfaranótt 4. febrúar 2017 í þremur herbergjum í húsi í Reykjavík haft samfarir og önnur kynferðismök við stúlku án hennar samþykkis.

Segir í ákæru að mennirnir þrír hafi beitt stúlkuna ólögmætri nauðung með því að notfæra sér ölvunarástand hennar og yfirburðarstöðu sína gagnvart henni þar sem hún var stödd með þremur ókunnugum mönnum fjarri öðrum.

Þá nýttu tveir hinna ákærðu sér yfirburðastöðu sína gagnvart stúlkunni sökum aldurs- og þroskamunar að því er segir í ákæru. Tveimur hinna ákærðu er gefið sök að hafa haft samfarir við stúlkuna gegn hennar vilja og þeim þriðja er gefið að sök að hafa látið stúlkuna hafa við sig munnmök.

Af hálfu stúlkunnar krefst héraðssaksóknari fimm milljóna króna í miskabætur frá mönnunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×