Innlent

Ætla að gefa sér nægan tíma í að gaumgæfa álit siðanefndar

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir lagði fram greinargerð um málið á fundi forsætisnefndar Alþingis í dag.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir lagði fram greinargerð um málið á fundi forsætisnefndar Alþingis í dag. Alþingi

Guðjón S. Brjánsson, 1. varaforseti forsætisnefndar Alþingis segir að nefndin hafi sammælst um að gefa sér góðan tíma í að fara yfir ráðgefandi álit siðanefndar um ummæli Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur, þingflokksformanni Pírata.

Forsætisnefnd kom saman fyrir hádegi í dag en um er að ræða vikulegan fund nefndarinnar.

„Greinargerð frá Þórhildi Sunnu var lögð fram, ég get staðfest það, en hún fékk enga efnislega umræðu,“ segir Guðjón.

Siðanefnd skilaði ráðgefandi áliti nefndarinnar til forsætisnefndar Alþingis fyrir helgi en hún komst að þeirri niðurstöðu að með ummælum sínum um Ásmund Friðriksson, þingmann Sjálfstæðisflokksins, hefði Þórhildur brotið gegn siðareglum þingsins.

Ummælin sem siðanefnd hefur fjallað um féllu í umræðuþættinum Silfrinu á RÚV 25. febrúar árið 2018. Þau voru voru á þá leið að uppi væri „rökstuddur grunur“ um að Ásmundur hefði dregið sér fé með því að láta ríkissjóð greiða óhóflegan aksturskostnað sinn.

Forsætisnefnd Alþingis mun í kjölfarið taka ráðgefandi álit siðanefndar til athugunar og frekari umfjöllunar og ákveða hvort nefndin geri álit siðanefndarinnar að sínu.

Aðspurður hvenær mætti búast við niðurstöðu nefndarinnar svaraði Guðjón því til að nefndin hygðist gefa sér góðan tíma í að gaumgæfa málið. „Það skýrist“.


Tengdar fréttir

Þórhildur skilar greinargerð til forsætisnefndar

Forsætisnefnd Alþingis fundar kl. 11.45 í dag þar sem gera má ráð fyrir að ráðgefandi álit siðanefndar Alþingis um ummæli Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur verði til umræðu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×